„Ég þarf ekki að vera handtekin til að fá athygli“

Birgitta Jónsdóttir þingmaður.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég þarf ekki að vera handtekin til að fá athygli,“ segir Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður, sem í morgun kom heim úr ferð til Bandaríkjanna, en ferðin var m.a. farin til að sýna Bradley Manning uppljóstrara, sem nú situr í fangelsi í Bandaríkjunum, stuðning. Hún er ánægð með ferðina.

„Þetta var mjög gagnleg ferð. Ég hitti margt fólk sem stendur framarlega í baráttu fyrir upplýsinga- og tjáningarfrelsi,“ segir Birgitta

Birgitta fór til Bandaríkjanna vegna þess að 5. apríl voru þrjú ár liðin síðan WikiLeaks í samstarfi við RÚV sýndi myndband frá Írak þar sem sjá mátti morð á saklausum borgurum. Myndbandið byggði á upplýsingum sem Bradley Manning kom til WikiLeaks. Manning situr nú í fangelsi í Bandaríkjunum og bíður dóms.

Upphaflega ætlaði Birgitta selja myndir úr myndbandinu og afla þannig fjár til að standa straum af lögfræðikostnaði Mannings. Birgitta segist telja að henni beri siðferðileg skylda til að reyna að styðja Manning. Hún segist vera þeirrar skoðunar að fjölmiðlar sem birtu efni sem komið var til þeirra vegna uppljóstrunar Manning beri einnig siðferðileg skylda að segja frá máli hans og þeirri meðferð sem hann hafi mátt sæta síðan hann var handtekinn.

Réttarhöldin yfir Manning eiga að hefjast í byrjun júní. Hann hefur játað 10 atriði af þeim 22 atriðum sem hann hefur verið ákærður fyrir. Hugsanlegt er að Manning verði ákærður fyrir njósnir, sem Birgitta segir mjög slæmar tíðindi, ekki síst fyrir blaðamenn sem hafi birt efni frá Manning.

Í tengslum við ferðina voru settir upp viðburðir þar sem Birgittu gafst færi á að hitta fólk sem stendur framarlega í baráttu fyrir upplýsinga- og tjáningarfrelsi í Bandaríkjunum.

Fráleitt að halda að ég vilji lenda í fangelsi

Áður en Birgitta lagði af stað í ferðina átti sér stað umræða hér heima um að stjórnvöld í Bandaríkjunum kynnu að meina henni að koma til landsins vegna tengsla hennar við WikiLeaks. Ekkert slíkt gerðist. „Það er tóm vitleysa sem einhverjir hafa látið sér detta í huga að ég hafi óskað mér þess að verða handtekin. Ég er er foreldri. Af hverju í ósköpunum heldur fólk að ég vilji lenda í fangelsi? Ég þarf ekki að vera handtekin til að fá athygli. Ég á engum vandræðum með að fá athygli. Ég fæ athygli út af þeim málefnum sem ég berst fyrir en ekki út af mér sjálfri,“ segir Birgitta.

Búið að þrengja mikið að upplýsinga- og tjáningarfrelsi

Birgitta segir að búið sé að þrengja mikið að uppljóstrum í Bandaríkjunum og núverandi forseti Bandaríkjanna hafi gengið miklu lengra á þessari braut en fyrirrennarar hans. „Það er t.d. þannig í Bandaríkjunum að sumar starfstéttir opinberra starfsmanna geta átt von á því að missa vinnuna eða lenda í fangelsi ef þeir skoða síðu WikiLeaks eða síðu þar sem er linkur á WikiLeaks.

Það er ekki að ástæðulausu sem við sem höfum búið í Bandaríkjunum eða vinnum með fólki sem býr í Bandaríkjunum lítum svo á að Bandaríkin séu orðin verri en Kína á sumum sviðum.“

Birgitta segir að einn vinur sinn í Bandaríkin, sem hafi aðstoðað hana, hafi birt og dreift upplýsingar um misþyrmingar á dýrum. Hann hafi verið handtekinn og látinn dúsa í fangelsi í 36 mánuði. Hún segir þetta aðeins eitt dæmið af mörgum um þá meðferð sem uppljóstrar megi þola í Bandaríkjunum.

Democracy Now! birti ítarlegt viðtal við Birgittu Jónsdóttur sem tekið meðan hún dvaldi í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert