Nokkrir kröfuhafar höfnuðu tillögu stjórnenda hjúkrunarheimilisins Eirar um lausn á fjárhagsvanda heimilisins. Þetta þýðir að Eir fer í opinbera nauðasamninga. Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Eirar, segir þessa niðurstöðu vonbrigði, sérstaklega þar sem 96% kröfuhafa hafi samþykkt tillöguna, en aðeins 4% hafi hafnað henni eða ekki svarað.
Stjórnendur Eirar hættu að borga af lánum í september á síðasta ári og síðan hafa stjórnendur unnið að því að finna lausn á fjárhagsvanda heimilisins. Heimilið skuldar samtals átta milljarða, en meginvandi heimilisins stafar af því að Húsrekstrarsjóðurinn, sem á og rekur rúmlega 200 öryggisíbúðir, getur ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna skuldasöfnunar og tapreksturs. Hjúkrunarheimilið og öryggisíbúðirnar eru reknar á sömu kennitölu.
Stjórn Eirar lagði í lok febrúar fram tillögu sem gerir ráð fyrir að gefið verði út skuldabréf til að standa við skuldbindingar gagnvart þeim sem hafa keypt búseturétt í öryggisíbúðunum. Um er að ræða verðtryggð skuldabréf til 25 ára með 3,5% vöxtum. Samkvæmt núverandi samningum ber Eir að endurgreiða íbúðarétt með einni greiðslu sex mánuðum eftir að íbúð er skilað.
Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Eirar, segir að forsenda fyrir því að tillaga stjórnar nái fram að ganga sé að allir íbúar í öryggisíbúðum samþykki tillöguna, en þeir eru um 120. Það sé nóg að einn segi nei, þá er tillagan fallin.
Fyrir helgi höfðu 96% íbúa samþykkt tillöguna. Sigurður segir að í kvöld hafi fengist lokasvar frá síðustu íbúunum og það hafi verið neikvætt. Hann segir að þessi niðurstaðan þýði að Eir fari í opinbera nauðasamninga. Sýslumaður muni skipa mann til að stýra ferlinu og hann leggi síðan fram frumvarp að nauðasamningum. Það frumvarp verði hugsanlega eitthvað svipað því sem nú liggi á borðum og 96% kröfuhafa hafi samþykkt. Í opinberum nauðasamningum nægir að 60% kröfuhafa (bæði hvað varðar fjölda kröfuhafa og fjárhæðir) segi já. Sigurður segir að nauðasamningar tefji allt ferlið um 3-4 mánuði.
Í fréttatilkynningu frá Eir segir að í því ferli sem sé framundan þurfi íbúðarréttarhafar m.a. að lýsa kröfum sínum með formlegum hætti og greiða atkvæði þegar nauðasamningurinn verður borinn upp til atkvæða. Lögmenn Eirar munu aðstoða íbúðarréttarhafa í þessu efni, sé þess óskað, íbúðarréttarhöfum að kostnaðarlausu.
Sigurður segir þetta mál vera erfitt gagnvart fólkinu sem búi í öryggisíbúðunum. Þar búi fullorðið fólk og sumir séu við lélega heilsu. Það sé slæmt að þurfa að framlengja óvissu þessa fólks. Sigurður segist hins vegar sannfærður um að nauðasamningar muni nást.
Búið er að koma upplýsingum um niðurstöðuna til íbúa í öryggisíbúðunum. Á fimmtudaginn verður síðan haldinn fundur með íbúum. Stjórn Eirar kemur saman til fundar á fimmtudaginn, en reiknað er með að stjórnin starfi áfram, en umboð hennar til að taka ákvarðanir verður takmarkað.
Stærstu lánadrottnar Eirar eru Íbúðalánasjóðir og lífeyrissjóðirnir. Náið samráð hefur verið haft við þessa aðila um þá tillögu að lausn sem nú liggur á borðinu.
Skuldir hjúkrunarheimilisins Eirar, án Húsrekstrarsjóðs, eru um 1,5 milljarðar. Fasteignamat hússins er um 2,2 milljarðar, en áætla má að kostnaður við að byggja heimilið sé 4-5 milljarðar. Skuldir Húsrekstrarsjóðs eru um 6,3 milljarðar, en íbúðirnar eru metnar í bókhaldi upp á 5,6 milljarðar. Eigið fé Eirar er neikvætt, en hafa verður í huga að eignir í bókhaldi eru ekki reiknaðar á matsvirði.