Lögin túlkuð of þröngt

Óttar Pálsson
Óttar Pálsson

Fjár­mála­stofn­an­ir á Íslandi hafa túlkað regl­ur um tengda aðila of þröngt vegna þess hve óljós og illa skil­greind viðkom­andi lög eru. Af þeim sök­um er sjaldn­ast hægt að líta svo á að menn hafi gerst sek­ir um umboðssvik í slík­um til­fell­um. Þetta er mat Ótt­ars Páls­son­ar, hæsta­rétt­ar­lög­manns. Hann var frum­mæl­andi á há­deg­is­verðar­fundi Lög­manna­fé­lags Íslands und­ir yf­ir­skrift­inni „Meðferð saka­mála - umboðssvik í lána­starf­semi“. Óttar er verj­andi sak­born­inga í Vafn­ings­mál­inu sem áfrýjað hef­ur verið til Hæsta­rétt­ar.

Í upp­hafi fund­ar­ins kom fram að embætti sér­staks sak­sókn­ara hafi gefið út sex ákær­ur vegna umboðssvika frá hruni en í heild hafi 91 mál komið til kasta embætt­is­ins sem varði umboðssvik. Það varði alls 330 sak­born­inga en sum­ir þeirra eigi hlut í fleiri en einu máli. Alls séu ein­stak­ling­arn­ir því 120 sem eru sak­born­ing­ar í umboðssvika­mál­um.

Óttar sagði lög um áhættu­töku banka ekki hafa verið skýr, sér­stak­lega hvað varði það hverj­ir telj­ist vera tengd­ir aðilar þegar áhætta er met­in. Þannig hafi rann­sókn­ar­nefnd Alþing­is bent á að reglu­gerð Evr­ópu­sam­bands­ins um það sé  óljós og illa skil­greind og að hún hafi ekki verið út­færð frek­ar í regl­um Fjár­mála­eft­ir­lits­ins.

Hann sagði það var­hug­ar­vert að taka til­lit til inn­an­húslána­reglna fjár­mála­stofn­ana við mat á sak­næmi meintra brota. Gest­ur Jóns­son, hæsta­rétt­ar­lögmaður, tók und­ir þessi orð Ótt­ars og lýsti yfir áhyggj­um sín­um af þeirri til­hneig­ingu.

„Það er ekki góð niðurstaða að ef stjórn­end­ur fyr­ir­tækja sem ganga langt í því að setja niður skrif­lega mark­mið um vönduð vinnu­brögð búi við meiri áhættu en þessi sem gæti þess ekki eins,“ sagði Gest­ur.

Hann sagði að umboðssvika­mál á Íslandi hafi verið afar fá í gegn­um tíðina þar til nú og spurði hvort að ástæðan væri sú að menn væri óheiðarlegri nú en áður eða hvort aðrar út­skýr­ing­ar lægi að baki.

„Er hugs­an­legt að ein af af­leiðing­um hruns­ins og kröfu sam­fé­lags­ins um rétt­læti og að mönn­um sé refsað sé sú að leit­ast sé við að finna ákvæði laga sem passa utan um þá hátt­semi sem er rann­sökuð? Er hugs­an­legt að við þá miklu skoðun á starf­semi fjár­mála­fyr­ir­tækj­anna fyr­ir hrun hafi menn seilst til þess að skil­greina hátt­semi refsi­verða sem hefði ekki verið tal­in það áður fyrr?“ spurði Gest­ur. Hann hef­ur verið verj­andi Sig­urðar Ein­ars­son­ar í Al Thani-mál­inu svo­nefnda en þar er meðal ann­ars ákært fyr­ir umboðssvik. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert