Lögin túlkuð of þröngt

Óttar Pálsson
Óttar Pálsson

Fjármálastofnanir á Íslandi hafa túlkað reglur um tengda aðila of þröngt vegna þess hve óljós og illa skilgreind viðkomandi lög eru. Af þeim sökum er sjaldnast hægt að líta svo á að menn hafi gerst sekir um umboðssvik í slíkum tilfellum. Þetta er mat Óttars Pálssonar, hæstaréttarlögmanns. Hann var frummælandi á hádegisverðarfundi Lögmannafélags Íslands undir yfirskriftinni „Meðferð sakamála - umboðssvik í lánastarfsemi“. Óttar er verjandi sakborninga í Vafningsmálinu sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar.

Í upphafi fundarins kom fram að embætti sérstaks saksóknara hafi gefið út sex ákærur vegna umboðssvika frá hruni en í heild hafi 91 mál komið til kasta embættisins sem varði umboðssvik. Það varði alls 330 sakborninga en sumir þeirra eigi hlut í fleiri en einu máli. Alls séu einstaklingarnir því 120 sem eru sakborningar í umboðssvikamálum.

Óttar sagði lög um áhættutöku banka ekki hafa verið skýr, sérstaklega hvað varði það hverjir teljist vera tengdir aðilar þegar áhætta er metin. Þannig hafi rannsóknarnefnd Alþingis bent á að reglugerð Evrópusambandsins um það sé  óljós og illa skilgreind og að hún hafi ekki verið útfærð frekar í reglum Fjármálaeftirlitsins.

Hann sagði það varhugarvert að taka tillit til innanhúslánareglna fjármálastofnana við mat á saknæmi meintra brota. Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður, tók undir þessi orð Óttars og lýsti yfir áhyggjum sínum af þeirri tilhneigingu.

„Það er ekki góð niðurstaða að ef stjórnendur fyrirtækja sem ganga langt í því að setja niður skriflega markmið um vönduð vinnubrögð búi við meiri áhættu en þessi sem gæti þess ekki eins,“ sagði Gestur.

Hann sagði að umboðssvikamál á Íslandi hafi verið afar fá í gegnum tíðina þar til nú og spurði hvort að ástæðan væri sú að menn væri óheiðarlegri nú en áður eða hvort aðrar útskýringar lægi að baki.

„Er hugsanlegt að ein af afleiðingum hrunsins og kröfu samfélagsins um réttlæti og að mönnum sé refsað sé sú að leitast sé við að finna ákvæði laga sem passa utan um þá háttsemi sem er rannsökuð? Er hugsanlegt að við þá miklu skoðun á starfsemi fjármálafyrirtækjanna fyrir hrun hafi menn seilst til þess að skilgreina háttsemi refsiverða sem hefði ekki verið talin það áður fyrr?“ spurði Gestur. Hann hefur verið verjandi Sigurðar Einarssonar í Al Thani-málinu svonefnda en þar er meðal annars ákært fyrir umboðssvik. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert