Birta samskiptin við dóminn

Gestur Jónsson (t.v.) og Ragnar H. Hall.
Gestur Jónsson (t.v.) og Ragnar H. Hall. Morgunblaðið/Ómar

Lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, sem reyndu að segja sig frá verjendastörfum í Al-Thani-málinu, hafa birt samskipti sín við Héraðsdóm Reykjavíkur í því skyni að sýna fram á að þeir hafi ekki fengið lögmæltan sólarhringsfrest til að skila greinargerð í tveimur kærumálum sem Hæstiréttur dæmdi í 4. apríl.

Á blaðamannafundi sem lögmennirnir héldu á mánudag sögðu þeir að Hæstiréttur hefði í síðustu viku ekki virt sólarhringsfrest sem verjendur og saksóknari hefðu til að skila greinargerðum til Hæstaréttar, en í kæru verjenda var krafist þess að aðalmeðferð í Al Thani málinu yrði frestað um 6-8 vikur.

„Hæstiréttur tilkynnti okkur um dómana kl. 13.23 þann dag [4. apríl] eða 2 klst. og 43 mínútum eftir að okkur var tilkynnt frá Héraðsdómi Reykjavíkur að kærumálsgögn hefðu verið send Hæstarétti.“

Með yfirlýsingu lögmannanna fylgja tölvubréf með samskiptum fulltrúa Gests við starfsmenn Héraðsdóms Reykjavíkur og dómara. Rétt er það hjá sérstökum saksóknara að tölvubréf var sent frá starfsmanni Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl kl. 16.35 þar sem segir að kærugögn verði send Hæstarétti daginn eftir.

Það sama kvöld sendir fulltrúi Gests starfsmanni héraðsdóms svo ítrekun um að verða látinn vita þegar kærugögnin hafa borist Hæstarétti.

Svar berst frá dómara málsins 3. apríl kl. 13.13 þar sem segir að málið sé í vinnslu, og gögnin verði líklega send Hæstarétti daginn eftir, þ.e. 4. apríl.

Starfsmaður Héraðsdóms Reykjavíkur sendir svo fulltrúanum póst 4. apríl kl. 10.40 þar sem segir: „Kærugögn S-127/2012 fóru frá okkur kl. 10.25 frá okkur [sic] til Hæstaréttar.“

Seinna sama dag kvað svo Hæstiréttur upp dóm sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka