HB Grandi hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti …
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag. mynd/HB Grandi

HB Grandi hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2013. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin á Bessastöðum í dag en Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, veitti þeim viðtöku.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 25. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989.

„HB Grandi er í fararbroddi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og eru fyrirtækinu veitt verðlaunin fyrir leiðandi starf í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á íslensku sjávarfangi. Mikil fagmennska einkennir fyrirtækið, starfsmenn og stjórnendur,“ sagði Friðrik Pálsson, formaður úthlutunarnefndarinnar og formaður stjórnar Íslandsstofu.

Hann sagði ennfremur að tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna væri að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Þá hlaut Jóhann Sigurðsson bókaútgefandi sérstaka heiðursviðurkenningu. Viðurkenningin er veitt einstaklingum sem með starfi sínu og verkum hafa borið hróður Íslands víða um heim og stuðlað að jákvæðu umtali um land og þjóð og þannig beint eða óbeint bætt ímynd okkar og orðspor erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert