Regluleg laun fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði voru 402 þúsund krónur að meðaltali árið 2012. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 300-350 þúsund krónur og voru 18% launamanna með laun á því bili.
Þá voru um 65% launamanna með regluleg laun undir 400 þúsund krónum á mánuði. Regluleg laun fullvinnandi karla voru 436 þúsund krónur að meðaltali á mánuði en kvenna 367 þúsund krónur.
Heildarlaun fullvinnandi voru að meðaltali 488 þúsund krónur á mánuði. Helmingur launamanna var með heildarlaun undir 432 þúsund krónum árið 2012 sem var miðgildi heildarlauna. Þá voru tæplega 30% launamanna með heildarlaun á bilinu 350-450 þúsund krónur. Greiddar stundir voru að meðaltali 43,1 á viku. Heildarlaun fullvinnandi karla voru 548 þúsund krónur að meðaltali á mánuði en kvenna 425 þúsund krónur, samkvæmt niðurstöðu launakönnunar Hagstofu Íslands.
Kennarar með lægstu launin en fjármálageirinn er með þau hæstu
Regluleg laun voru hæst í atvinnugreininni fjármála- og vátryggingastarfsemi árið 2012, eða 584 þúsund krónur hjá fullvinnandi launamönnum. Lægst voru launin í atvinnugreininni fræðslustarfsemi eða 346 þúsund krónur að meðaltali.
Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru 423 þúsund krónur að meðtali á mánuði hjá fullvinnandi launamönnum og var um helmingur launamanna á almennum vinnumarkaði með regluleg laun undir 354 þúsundum króna en það var miðgildi reglulegra launa. Regluleg laun opinberra starfsmanna voru 378 þúsund krónur að meðaltali og miðgildi þeirra var 352 þúsund krónur.