Mistök en ekki brot í starfi

Biskup Íslands fól Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup á Hólum, til …
Biskup Íslands fól Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup á Hólum, til að ræða við prestinn og sóknarnefndina í tengslum við mál Guðnýjar.

„Við lítum á þetta sem mistök. Við lítum ekki á þetta sem brot í starfi; hann hefur ekki brotið nein lög,“ segir Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, um aðkomu Sighvats Karlssonar, sóknarprests á Húsavík, í máli Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur, sem var nauðgað á Húsavík árið 1999.

Guðný Jóna sagði í viðtali við Kastljós, sem var sýnt sl. mánudagskvöld, að séra Sighvatur hefði „ýjað“ að því við sig hvort „það væri ekki betra að hætta bara við þetta“, þ.e. að kæra nauðgunina til lögreglu.

„Sighvatur er búinn að hringja í Guðnýju Jónu til Noregs og biðja hana afsökunar á þessum mistökum sem að hann gerði,“ segir Solveig Lára í samtali við mbl.is. Hún bætir við að Guðný Jóna hafi fyrirgefið Sighvati.

„Þetta eru mistök sem hann lærir af og vonandi fleiri í leiðinni. Nú munum við biskupar skerpa á þessum verkferlum í sálgæslunni,“ segir Solveig Lára, en hún fundaði með Sighvati og sóknarnefndinni á Húsavík á milli klukkan 16 og 18 í dag.

Aðspurð segir Solveig að þar sem Sighvatur hafi ekki gerst brotlegur í starfi, þá muni kirkjan ekki aðhafast frekar í málinu. Hins vegar verði lögð áhersla á að skerpa á verkferlum sem varði það hvernig bregðast eigi við í ofbeldismálum sem komi inn á borð presta. Það verði gert á prestastefnu sem hefjist í næstu viku.

Spurð hvort samstaða hafi verið í sóknarnefndinni um málið segir Solveig Lára: „Þau bera traust til prestsins.“ Þá vonist nefndin til þess að sátt náist í samfélaginu.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í yfirlýsingu, sem var birt á heimasíðu þjóðkirkjunnar í gær, að kynferðisbrot ættu ekki að liggja í þagnargildi og Guðný hefði sýnt hugrekki.

„Kirkjan hefur einsett sér að vera fyrirmyndarstofnun þegar kemur að viðbrögðum við kynferðisbrotum. Þegar mistök eru gerð í viðbrögðum kirkjunnar þarf að leiðrétta þau og læra af þeim. Þannig ætlar kirkjan að vinna,“ sagði Agnes í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert