Pétur Guðgeirsson, dómsformaður í Al-Thani-málinu svonefnda, frestaði við upphaf aðalmeðferðar málinu ótiltekið. Áður leysti hann frá verjendastörfum þá Gest Jónsson og Ragnar H. Hall og skipaði Sigurði Einarssyni og Ólafi Ólafssyni nýja verjendur.
„Það er ljóst að dómarinn á ekki annan kost en að leysa þessa tvo verjendur frá starfanum, þrátt fyrir synjun dómara þess efnis. Þeir eru leystir frá verjendastörfum,“ sagði Pétur Guðgeirsson. Hann sagði nýja verjendur svo geta nálgast gögn málsins hjá forverum sínum þegar það hentar þeim. Og að þeir þurfi tíma til að kynna sér umfang málsins og skjölin áður en hægt sé einu sinni að fjalla um hvenær aðalmeðferð geti farið fram. Var málinu því frestað ótiltekið.
Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, var að vonum ósáttur við þetta. Hann sagði ekkert annað búa að baki en að tefja málið og að með þessu háttalagi brjóti lögmennirnir gegn lögbundnum skyldum sínum. Krafðist hann þess að lögð verði á þá réttarfarssekt.
Dómari sagði ekki skilyrði til þess að þessu sinni.