„Vextir í þessu landi eru að draga allan lífsneista úr heimilunum,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, á stjórnmálafundi sem sambandið átti með forystumönnum stjórnmálaflokkanna í kvöld.
Gylfi sagði að meðalfjölskylda á Íslandi fengi ekki lán til að kaupa meðalíbúð þegar óverðtryggðir vextir væru hærri en 5,5%. Bankarnir bjóða í dag 7-7,75% og Gylfi sagði að Íbúðalánasjóður teldi sig þurfa tæplega 9% vexti.
„Ef okkur tækist að ná tökum á verðbólgunni og verðbólguvæntingar færu niður í 2,5% og menn leystu úr vanda Íbúðlánasjóðs þannig að hann væri með 2% ávöxtunarkröfu, en ekki 2,5% eins og er í dag, þá gætum við komið þessum vöxtum niður í 5%.
Ef vextir eru 5% af meðalíbúð sem kostar 32 milljónir og lán upp á 26 milljónir, þá myndi greiðslubyrðin lækka við það um 72 þúsund á mánuði eða um 16% af ráðstöfunartekjum þessarar fjölskyldu.
Ef við myndum hins vegar fara þá leið að lækka skuldirnar um 20% og gera ráð fyrir því að vextir yrðu nokkurn veginn óbreyttir þá myndi greiðslubyrði ekki lækka nema um 30 þúsund. Það er því alveg augljóst að verðbólgan er okkar versti óvinur og raunveruleg aðstoð við heimilin felst í því að ná tökum á henni,“ sagði Gylfi.
Gylfi sagði að stjórnmálaflokkarnir yrðu að hafa fyrir því að skapa þjóðarsátt einhverjar trúverðugar forsendur. Ef næsta ríkisstjórn legði ekki fram trúverðuga stefnu í gengis- og verðlagsmálum þá yrði líklegra „að átökin yrðu í kringum verðtryggingu launa heldur en afnám verðtryggingar lána“.
Gylfi sagði ekki sjálfgefið að verkalýðshreyfingin hefði samflot við gerð næstu kjarasamninga. Mörg félög teldu að þau þyrftu að ná fram „leiðréttingu launa“.