Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að dómari frestaði aðalmeðferð í Al-Thani-málinu um ótilgreindan tíma í morgun. Hann sagði ljóst að lögmenn hefðu fundið glufu til að tefja mál og því ekki útilokað að þessari aðferði yrði beitt aftur.
Eins og kom fram á mbl.is í morgun frestaði dómari í Al-Thani-málinu aðalmeðferð sem átti að hefjast í morgun. Sakborningar, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundson og Ólafur Ólafsson, voru allir mættir í dómsal. Þeir Sigurður og Ólafur mættu með nýjum verjendum sínum, þeim Ólafi Eiríkssyni og Þórólfi Jónssyni, eftir að Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall sögðu sig frá málinu.
Raunar hafði dómari málsins áður synjað þeim Gesti og Ragnari að segja sig frá verjendastörfum. Í morgun sagðist hann hins vegar ekki eiga annan kost en að leysa þá frá verjendastörfum, enda væru þeir ekki mættir og hefðu ítrekað í svarbréfi til dómara að þeir myndu ekki mæta og ekki væri hægt að skylda þá til að verja sakborninga gegn samvisku sinni.
Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, krafðist þess í kjölfarið að lögmennirnir yrðu sektaðir enda hefðu þeir brotið gegn lögbundnum skyldum sínum.
Eftir að dómþingi lauk sagði Björn í samtali við MBL Sjónvarp að hann væri afar vonsvikinn yfir þessari niðurstöðu dómara og að málið skyldi frestast. Hann sagðist telja að þarna hefðu lögmenn fundið glufu til að tefja mál og ekki annað á honum að heyra en að hann óttaðist að þarna væri búið að setja fordæmi og aðferðin yrði notuð í öðrum málum.