Nýr samningur Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar fyrir börn verður kynntur og undirritaður í velferðarráðuneytinu í dag kl. 15.00.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að samningurinn marki tímamót því frá því að samningur milli Tannlæknafélagsins og Tryggingastofnunar ríkisins rann út árið 1998 hafa tannlæknar starfað að mestu án samnings.
Ekki liggur fyrir hvað felst í nýja samningnum, en Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, sagði í samtali við mbl.is, þegar samningsdrög lágu fyrir í lok mars, að í þeim fælist að eftir sex ár myndu allir árgangar barna til 18 ára aldurs njóta fullrar endurgreiðslu tannlækna að frádregnu komugjaldi, líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.