Tekin hefur verið ákvörðun um að lækka verð á dömu- og herrafatnaði um 33% í dag og næstu þrjá daga í verslunum Hagkaups „og sýna þannig fram á hvert verðið gæti verið í eðlilegu skatta- og tollaumhverfi og eins og tíðkast í fjölmörgum nágrannalöndum,“ eins og segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Haft er eftir Gunnari Inga Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Hagkaups, að gamaldags tollar þýði hærra vöruverð og að markmiðið sé að sýna kjósendum fram á að þeir geti kosið aukinn kaupmátt og lægra vöruverð í þingkosningunum síðar í þessum mánuði. Einfaldar breytingar og lækkanir á tollum og breytingar á virðisaukaskattinum færi kaupmátt beint í vasa almennings og geri vöruverð sambærilegt við það sem gangi og gerist víða erlendis.
„Við skorum á verðandi þingmenn að endurskoða þessa háu skatta, einfalda kerfið og leggja af gamaldags tolla. Það er svo sannarlega aukinn kaupmáttur,“ segir hann ennfremur. Nú sé rétti tíminn til þess að hvetja þá sem séu í framboði til þess að skoða málin og bregðast við. Verið sé skattleggja íslenska verslun úr landi þar sem hún hafi hreinlega ekki tök á því að keppa við erlenda samkeppni.