ASÍ gagnrýnir samning við Kína

AFP

Alþýðusamband Íslands mótmælir því harðlega að til standi að gera fríverslunarsamning við Kína. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

„Fyrir liggur að kínversk stjórnvöld viðurkenna ekki mannréttindi og hafa áratugum saman hunsað grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og þannig meinað launafólki að stofna frjáls stéttarfélög til að semja um sín kjör. Það er ótrúlegt að ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna skuli ætla íslenskum fyrirtækjum og íslensku launafólki að keppa á jafnréttisgrundvelli við fyrirtæki í Kína, sem þurfa ekki að uppfylla nein þau skilyrði sem þau íslensku þurfa að uppfylla. Afleiðingin af þessum gjörningi er augljós. Hann mun þvinga niður launakjör hér á landi og það sem verra er, þvinga íslensk fyrirtæki til að flytja framleiðslu sína til Kína og selja hana síðan bæði hér og annarsstaðar undir íslenskum merkjum.

Það er algjört skilyrði af hálfu ASÍ, að við gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki verði bein og ófrávíkjanleg skilyrði um að viðkomandi ríki viðurkenni og framkvæmi í raun allar grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Alþýðusambandið krefst þess að tilgangi heimsóknar forsætisráðherra til Kína verði breytt á þann veg að í stað undirritunar viðskiptasamnings verði teknar upp viðræður um stöðu mannréttindamála í landinu og skyldur Kína gagnvart alþjóðasamfélaginu. Mannréttindi almennings og sér í lagi grundvallarréttindi launafólks og frjálsrar verkalýðshreyfingar verða að komast á dagskrá,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert