Samkeppniseftirlitið leggur 500 milljóna króna sekt á Valitor fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum.
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, er komist að þeirri niðurstöðu að Valitor hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust gegn keppinautum félagsins á markaði fyrir færsluhirðingu. Einnig braut Valitor gegn skilyrðum sem fyrirtækið hafði skuldbundið sig til þess að virða.
„Mál þetta varðar markaðinn fyrir færsluhirðingu. Færsluhirðing felst í þeirri þjónustu við söluaðila (t.d. verslanir) að veita þeim heimild til að taka við greiðslum með greiðslukortum, taka við færslum þeirra og greiða þeim út þegar korthafar greiða reikninga sína. Valitor er markaðsráðandi á þessum markaði og einnig starfa á markaðnum Borgun hf. og Kortaþjónustan (Teller),“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
Í lok árs 2007 viðurkenndi m.a. Valitor víðtæk brot á samkeppnislögum og samþykkti að greiða stjórnvaldssekt sem nam 385 milljónum króna. Einnig féllst Valitor á að hlíta skilyrðum sem ætlað var m.a. að koma í veg fyrir að fyrirtækið myndi á ný misnota markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem ætlað var að valda keppinauti samkeppnislegu tjóni. Lauk þessu máli endanlega í upphafi árs 2008, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008.
Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar kæru Borgunar og nokkrar ábendingar vegna háttsemi Valitors á markaði fyrir færsluhirðingu. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt er í dag kemur fram að Valitor hafi brotið gegn tveimur skilyrðum sem félagið hafði samþykkt að hlíta í sáttinni frá 2007.
Í því fólst m.a. að Valitor misnotaði trúnaðarupplýsingar um keppinauta sína í færsluhirðingu sem félagið hafði aðgang að vegna stöðu sinnar í útgáfu VISA-greiðslukorta hér á landi.
„Þessi skilyrði voru viðbrögð við alvarlegum brotum Valitors og voru sett til að vinna gegn frekari brotum fyrirtækisins. Er í eðli sínu afar alvarlegt að fyrirtæki brjóti skilyrði af þessum toga sem það hefur skuldbundið sig til þess að virða.
Brot Valitors fólust einnig í svonefndri undirverðlagningu. Í þeirri háttsemi felst í aðalatriðum að markaðsráðandi fyrirtæki selur vörur undir kostnaðarverði. Í viðskiptum færsluhirða og söluaðila er gerður greinarmunur á annars vegar debetkortum og hins vegar kreditkortum. Er verulegur munur á meðferð þessara korta í viðskiptum og uppgjöri vegna þeirra. Leiðir þetta til þess að verðlagning færsluhirða gagnvart söluaðilum vegna þessara tveggja kortategunda er mismunandi.
Háttsemi Valitors fólst í því að fyrirtækið verðlagði þjónustu sína í færsluhirðingu vegna debetkorta undir breytilegum kostnaði á árunum 2007 og 2008. Með þessari undirverðlagningu var félagið líklegra til að fá samninga við söluaðila um færsluhirðingu vegna kreditkorta sem talin er arðsamari þjónusta.
Var umfang þessarar undirverðlagningar verulegt og beitt m.a. gagnvart öflugum smásölum. Miklu skiptir að öll verðmyndun sé eðlileg á svo mikilvægu sviði viðskipta og minni keppinautar séu ekki með óeðlilegum hætti hindraðir í að veita samkeppnislegt aðhald. Jafnvel þótt viðskiptavinir njóti þess til skamms tíma að fá þjónustu á mjög lágu verði, leiðir röskun á samkeppni sem slík óeðlileg verðlækkun markaðsráðandi fyrirtækis veldur, þegar til lengri tíma er litið, til fækkunar keppinauta, hærra verðs, minni þjónustu eða gæða og til þess að valkostum viðskiptavina fækki. Samkeppnislögum er m.a. ætlað að tryggja að virk samkeppni gagnist neytendum og atvinnulífinu til lengri tíma litið,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.