„Við eigum örugglega eftir að skoða þetta og hvað liggur þarna að baki. Við lítum það auðvitað alvarlegum augum að færast úr appelsínugulum yfir í rauðan“.
Þetta segir Dagbjört S. Bjarnadóttir, oddviti sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, spurð út í skýrslu Umhverfisstofnunar þar sem Mývatn er flokkað undir rauð svæði, þ.e. svæði sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu eða hafa tapað því að hluta til.
Að sögn Dagbjartar hefur sveitarstjórnin ekki haft aðstöðu til þess að skoða málið. Hún bendir á að sveitarstjórnin hafi fundað í fyrradag og að málið hefði eflaust verið rætt þar ef menn hefðu vitað af því. Hins vegar hafi skýrslan ekki verið birt á netinu fyrr en eftir að Morgunblaðið greindi frá henni í gær.
Í ítarlegri umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að grunnvatn við norðanvert Mývatn er talsvert mengað af næringarefnum sem koma fyrst og fremst frá byggðinni, að sögn Árna Einarssonar, lífrræðings og forstöðumanns Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.