„Ég vil vara við hugtakinu útflutningstekjur“

Andri Snær Magnason rithöfundur.
Andri Snær Magnason rithöfundur.

„Ég vil vara við hugtakinu útflutningstekjur.“ Þetta sagði Andri Snær Magnason rithöfundur á opnum ársfundi Orkuveitu Reykjavíkur í dag, en á fundinum fjallaði Andri Snær um hvers vegna umhverfisverndarfólk hefði ákveðið að spyrna við fótum við áformum um mikla uppbyggingu í áliðnaði.

„Útflutningstekjur af áli er alveg marklaust hugtak. Það er einhvers konar andleg nýlenduvæðing af hálfu hagsmunaaðila til að telja fólki trú um að 260 milljarðar sé raunverulega að koma til okkar í útflutningstekjur,“ sagði Andri Snær.

Afurðir orkufreks iðnaðar voru samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands 257 milljarðar árið 2011 og 257 milljarðar árið 2012. Útflutningstekjur af sjávarútvegi námu 251 milljarði árið 2011, en 268 milljörðum árið 2012.

„Fráveita, rusl, flokkun og umferð sátu á hakanum hjá umhverfissamtökum“

Andri Snær sagði að á síðasta áratug hefðu verið uppi áform um að nær öll virkjanleg orka á Austurlandi færi til Alcoa og að nær öll virkjanleg orka á Norðurlandi færi til sama fyrirtækisins. Á sama tíma hefðu verið uppi mikil áform um uppbyggingu stóriðju í Helguvík, stækkun á Grundartanga, stækkun í Straumsvík og uppbygging í Þorlákshöfn. Allt hefði þetta átt að gerast á svipuðum tíma og í reynd hefði ein kynslóð ætlað að nýta stóran hluta af allri virkjanlegri orku í landinu. Þetta hefði þýtt að önnur hver náttúruperla á Íslandi hefði verið í hættu. Þetta hefði kallað á fjárfestingar og skuldir upp á 500-1.000 milljarða.

„Þetta voru skuldir sem áttu að þjóna einum málmi og hugsanlega 2-3 fyrirtækjum,“ sagði Andri Snær. „Þessi mynd var uppi og hún var ekki sett fram sem nauðsynleg eða möguleg heldur var hún sett fram sem óhjákvæmileg framtíðarsýn til að lifa af í þessu landi.“

Andri Snær sagði að fólk sem þætti væntum landið sitt hefði risið upp gegn þessari framtíðarsýn. Þessi barátta hefði kallað á mikla orku af hálfu umhverfisverndarfólks. „Það má segja að umhverfisumræða á Íslandi hafi tekið  nokkur skref aftur á bak því að hún fór að mestu leyti í umræður um ál og orku á meðan fráveita, rusl, flokkun og umferð sátu á hakanum hjá umhverfissamtökum.“

Orkuvinnsla á Íslandi skilar 9.000 störfum

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, talaði einnig á fundinum, en hans sýn var talsvert önnur en Andra Snæs á orkugeirann.

Þorsteinn benti á að orkuklasinn hefði á síðasta ári skilað yfir 100 milljörðum í tekjur, en þær voru innan við 35 milljarðar fyrir 10 árum. Hagnaður orkufyrirtækjanna hefði aukist mikið á síðustu árum. Starfsmenn orkufyrirtækjanna væru um 1.100 og um 3.500 starfsmenn störfuðu í fyrirtækjum sem notuðu mikla orku. Til viðbótar væru um 5.200 afleidd störf. Orkuvinnsla á Íslandi skilaði því um 9.000 störfum. Mest af þessum störfum væri hálaunastörf. Um væri að ræða tæknivædda starfsemi og menntunarstig starfsmanna væri hátt.

Þorsteinn sagði að miklir möguleikar væru í orkuiðnaði á Íslandi, ekki síst í ýmsum hliðargreinum eins og fiskvinnslu, efnaiðnaði, garðyrkju o.s.frv.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert