Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ráðleggur sjósundsfólki að fara ekki í sund í Nauthólsvík/Fossvogi dagana 15.-22. apríl vegna endurnýjunar á dælum í fráveitudælustöðinni við Hafnarbraut í Kópavogi. Ástæðan er möguleg saurgerlamengun.
Endurnýjun á dælum í fráveitudælustöðinni við Hafnarbraut mun standa yfir dagana 15.- 20. apríl og skapar það hættu á að saurgerlamengun í sjó verði yfir viðmiðunarmörkum á framkvæmdatíma og tveimur dögum betur. Framkvæmdin er á vegum Kópavogsbæjar en aðgerðin á að auka rekstraröryggi stöðvarinnar og líkur á mengun minnkar, segir í tilkynningu.
Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík vill af þessum sökum ráðleggja fólki frá því að fara í sjósund í Fossvogi (Nauthólsvík/Ylströnd) dagana 15.-22. apríl.