Viðskiptavinur Vodafone uppgötvaði fyrir skömmu að reikningur sem fyrirtækið hafði sent honum hafði verið of hár um 2-3 mánaða skeið. Upphæðinni skeikaði um 20-30 þúsund krónur. Vodafone viðurkenndi í kjölfarið mistök og fékk viðskiptavinurinn endurgreitt í samræmi við þau. Jafnframt fékk viðskiptavinurinn þau svör frá Vodafone að hann væri ekki sá eini sem hefði lent í mistökum af þessu tagi.
Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Vodafone, segist ekki kannast við að nein kerfisbundinn skekkja sé í kerfinu af neinu tagi. Tilvikið sem um ræðir sé tilfallandi og gæti skýrst af mistökum í skráningu, afskráningu eða öðrum breytingum sem hafi orðið á þjónustu viðkomandi. Hrannar tekur fram að viðskiptavinir Vodafone séu um 100 þúsund og svona mál geti því komið upp.
„Ef skráð er vitlaust inn á reikning, eða ekki skráð út þegar fólk hefur sagt upp þjónustu, eða þjónustu ekki sagt upp með réttum hætti þá getur þjónusta setið eftir á reikningi,“ segir Hrannar. „Sannarlega á þetta ekki að vera svona en þegar umfangið er mikið er erfitt að útiloka að mistök komi upp.“