Hvetja til útstrikana

Merki Pírata-flokksins.
Merki Pírata-flokksins.

Pírata-flokkurinn hvetur stuðningsmenn sína í Norðaustur-kjördæmi til að strika yfir nafn Inga Karls Sigríðarsonar, sem er í 9. sæti á framboðslista flokksins. Þetta segir í yfirlýsingu frá flokknum, en tilefnið eru ummæli sem Ingi lét falla á netinu um Hildi Lilliendahl, sem stendur framarlega í baráttu femínista á Íslandi.

Ummælin voru niðrandi í garð Hildar þar sem hún var kölluð öllum illum nöfnum.

„Í kjölfar dreifingar á ummælum frambjóðanda Pírata í 9. sæti í Norðausturkjördæmi um Hildi Lilliendahl, vilja Píratar ítreka að ummæli hans endurspegla alls ekki almenn sjónarmið flokksmeðlima. Ekkert okkar sem þurfum að svara fyrir flokkinn sem talsmenn, né þeir sem hafa unnið hve mest fyrir flokkinn getum sætt okkur við ummæli sem þessi. Því miður er ekki hægt að víkja honum úr sæti eftir að framboðslistum hefur verið skilað inn. Píratar vilja þó hvetja til þess að strikað verði yfir nafn hans á kjörseðlum.

Píratar eru flokkur beins lýðræðis, gagnsæis og borgaralegra réttinda og bjóða alla velkomna að starfinu hvort sem það eru karlar eða konur. Píratar kjósa öðruvísi á lista sína en aðrir. Það eru engir kynjakvótar, engin forvöl og engir fléttulistar. Fólkið ræður.

Kynjatölfræði flokksins er þó þannig að oddvitar flokkanna skiptast jafnt. Fimm efstu fulltrúar flokksins í öllum kjördæmum skiptast þannig að konur eru í 41% sæta og karlmenn í 59%. Þessi tölfræði er sérstaklega skemmtileg fyrir þær sakir að umtalsvert fleiri karlmenn buðu sig fram en konur.

Við erum hvorki vinstri né hægri flokkur og við erum ekki kynjaflokkur. Við erum holdgerving nútímans þar sem gömul hugmyndafræði og kyn skipta ekki máli. Góðar stefnur og góðar manneskjur eru ofar öðru.

Við erum að gera það besta sem við getum til að læra af þessum ófyrirséðu atburðum og bregðast við þessu á sem heiðvirðilegastan máta,“ segir í yfirlýsingu frá Pírötum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert