Raunverð fasteigna er svipað og árið 2010

Fasteignaverð hefur hækkað mest í póstnúmerum 101 og 107
Fasteignaverð hefur hækkað mest í póstnúmerum 101 og 107 mbl.is/Sigurður Bogi

Verð á fasteignum á landinu öllu hækkaði um 0,91% að raungildi á tímabilinu frá janúar 2010 og fram til janúar á þessu ári. Verð á fasteignum utan höfuðborgarsvæðisins lækkaði á sama tímabili um 1,83%. Verð á einbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði líka eða um 4,12% en verð á fjölbýli á sama svæði hækkaði hins vegar um 2,61%.

Þetta má lesa út úr tölum Hagstofu Íslands með því að bera saman vísitölu markaðsverðs húsnæðis, sem byggist á gögnum frá Þjóðskrá Íslands, og vísitölu neysluverðs.

Sé staðan í janúar 2007 og í janúar 2013 borin saman kemur í ljós að verð á fjölbýli hefur lækkað um 22,9% en verð á einbýli um 26,9% á höfuðborgarsvæðinu. Verð á fasteignum utan svæðisins hefur lækkað um 26% og að meðaltali um 24% á landinu öllu. Séu árin 2004 og 2013 borin saman hefur verð á fjölbýli hækkað um 7,4% og verð á einbýli um 15,5% á höfuðborgarsvæðinu en lækkað um 7,8% utan höfuðborgarsvæðisins. Á landinu öllu er hækkunin að meðaltali 4,86%.

Verðið hefur með öðrum orðum hækkað frá 2010, hrunið miðað við bóluárið 2007 en hækkað frá 2004.

Bjuggust við meiri hækkun

Ari Skúlason, sérfræðingur hjá Landsbankanum, segir að um mitt síðasta ár hafi hann búist við því að verð á fasteignum myndi hækka meira en raun hafi orðið. Hagvöxtur hafi síðan reynst minni en spár gerðu ráð fyrir og það eigi ásamt öðru þátt í að draga úr þeim væntingum sem bundnar voru við verðhækkanir í fyrra.

„Verðfallið var orðið svo mikið að það mátti búast við hækkunum. Fyrir um ári síðan bar umræðan í þjóðfélaginu merki þess að þá tóku að birtast jákvæðar tölur um einkaneyslu og hagvöxt. Þær væntingar hafa að einhverju leyti brugðist.“

Viðar Böðvarsson, varaformaður Félags fasteignasala, segir þróun fasteignaverðs síðustu misserin fara eftir staðsetningu.

„Það er erfitt að ræða um þróun fasteignaverðs. Það hefur hækkað verulega á mjög afmörkuðu svæði og í afmarkaðri stærð íbúða. Litlar íbúðir í póstnúmerunum 101 og 107 í Reykjavík hafa hækkað talsvert umfram vísitölu á þessum tíma, á sama tíma og ákveðnar eignir úti á landi hafa lækkað talsvert miðað við vísitöluna, myndi ég halda.

Eignir í sumum úthverfum Reykjavíkur hafa verið á minni hreyfingu en eignir miðsvæðis í borginni. Það er í takt við það sem ég bjóst við,“ segir Viðar sem vísar til kosninganna þegar hann er spurður um horfur í ár. „Við erum á umbrotatímum. Fer það ekki svolítið eftir því hvað gerist í lok mánaðarins?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert