Stoðir evrusvæðisins ótraustar

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. Ragnar Axelsson

Evrusvæðið hvílir á ótraustum stoðum sem endurspegla grundvallargalla í fyrirkomulagi myntsamstarfsins. Þetta er skoðun Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra og formanns Alþýðuflokksins.

Jón Baldvin lýsti yfir þessari skoðun sinni á málþingi á vegum alþjóðamála- og stjórnmálafræðideildar Háskólans í Vilnius á þriðjudaginn var en hann birti í gær minnispunkta úr ræðunni á vefsíðu sinni.

Jón Baldvin skipti ræðu sinni í fjóra hluta og spurði í þeim síðasta hvers konar vandi steðjaði að evrusvæðinu.

Bar hann þar saman stöðu Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum og evruríkisins Grikklands.

Kalifornía væri í raun gjaldþrota en nyti stuðnings Bandaríkjastjórnar og seðlabanka landsins.

Hvert og eitt sambandsríki Bandaríkjanna þyrfti ekki að óttast að markaðirnir gerðu áhlaup á þau ef þau stæðu höllum fæti fjárhagslega, enda hefði alríkisstjórnin í Washington og seðlabankinn tæki í sínu vopnabúri til að hrinda slíkum áhlaupum.

Þrír grundvallargallar

Jón Baldvin telur þetta sýna fram á þrjá grundvallargalla í uppbyggingu evrusvæðisins.

Í fyrsti lagi þurfi Seðlabanki Evrópu að hafa heimild til að vera lánveitandi til þrautavara til aðildarríkjanna.

Í öðru lagi þurfi bankinn að geta haft stjórn á magni peninga í umferð með því að gefa út skuldabréf og kaupa þau af aðildarríkjum.

Í þriðja lagi þurfi miðlægt vald - þ.e. yfir evrusvæðinu - að hafa tæki til að stuðla að lágmarks samhæfingu og stjórnun peningastjórnunar innan myntbandalagsins, í því skyni að tryggja stöðugleika á evrusvæðinu.

Telur Jón Baldvin að Seðlabanki Evrópu þurfi að hafa vald til að koma veikari aðildarríkjum evrusvæðisins til hjálpar í kreppu og tryggja þannig að lántökukostnaður þeirra rjúki ekki upp úr öllu valdi vegna vantrausts markaða.

Jón Baldvin sagði að arkitekar evrusvæðisins, á borð við Frakkann Jacques Delors, hafi gert sér grein fyrir þessum ágöllum en að menn hafi bundir vonir við að þeir yrðu sniðnir af með tímanum. Andstaða Þjóðverja við frekari samruna hafi þar komið við sögu en skilja má á minnispunktum Jón Baldvins að hann reki það meðal annars til biturrar reynslu Þjóðverja af verðbólgu á 20. öld.

„Þetta voru mistök sem við greiðum nú dýru verði fyrir. Evrusvæðið er því eins og hálfbyggt hús, ófullgert og á ótraustum grunni,“ sagði Jón Baldvin meðal annars í lauslegri þýðingu úr ræðunni sem var á ensku.

Telur Jón Baldvin að aðgerðir til handa evrusvæðinu að undanförnu gangi of skammt og séu að óbreyttu dæmdar til að mistakast. Stuðla þurfi að frekari samruna og samhæfingu efnahagskerfanna.

Þess má geta að Baldur Þórhallsson, Jean Monnet-prófessor í Evrópufræðum við Háskóla Íslands og varaþingmaður Samfylkingarinnar, var einnig meðal ræðumanna í Vilnius.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert