Flugvöllurinn of frekur

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kröf­ur flug­mála­yf­ir­valda um fell­ingu elsta hluta skóg­ar­ins í Öskju­hlíðinni og um­fangs­mik­il lend­ing­ar­ljós á Ægisíðunni færa Reyk­vík­ing­um heim sann­inn um að flug­völl­ur­inn er of frek­ur í um­hverfi sínu í miðborg Reykja­vík­ur. Þetta segja tveir full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins í skipu­lags­ráði Reykja­vík­ur.

Á fundi skipu­lags­ráðs fyr­ir helgi var rætt um fyr­ir­spurn Flug­fé­lags Íslands varðandi end­ur­bæt­ur og viðbygg­ingu flug­stöðvar Flug­fé­lags Íslands á Reykja­vík­ur­flug­velli. Á fund­in­um kom fram að einnig væri lagt til að unnið yrði að því að bæta ör­ygg­is­mál á flug­vell­in­um með til­liti til lend­ing­ar­ljósa og trjá­gróðurs í Öskju­hlíð.

Í bók­un full­trúa Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Besta flokks­ins og Vinstri grænna seg­ir að nást þurfi ásætt­an­leg niðurstaða fyr­ir Isa­via og fyr­ir Reykja­vík­ur­borg. „Ráðið vill þó árétta að um­hverf­is flug­völl­inn eru mik­il­væg út­vist­ar­svæði sem brýnt er að vernda.“

Gísli Marteinn Bald­urs­son og Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins í skipu­lags­ráði, létu þá bóka að flug­völl­ur­inn í Vatns­mýri upp­fyllti ekki til­mæli Alþjóða flug­mála­stofn­un­ar­inn­ar um ör­ygg­is­mál. Gildi það til dæm­is um ör­ygg­is­svæði við flug­brautar­enda, ör­ygg­is­svæði frá miðlínu og um aðflugs­ljós og hindr­un­ar­fleti. „Þetta hafa flug­mála­yf­ir­völd verið treg til að viður­kenna.“

Þá segja þau að borg­ar­yf­ir­völd eigi að hafna kröf­um um fell­ingu elsta hluta skóg­ar­ins í Öskju­hlíð og upp­setn­ingu lend­ing­ar­ljósa á Ægisíðu. „Borg­ar­yf­ir­völd ættu að hafna slík­um kröf­um, rétt eins og þau höfnuðu stór­um ljósamöstr­um í Hljóm­skálag­arðinum þegar flug­valla­yf­ir­völd reyndu að fá þau í gegn.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert