„Fullyrðingar um að búgreinin sé ekki landbúnaður er einfaldlega rakalaust bull sem sett er fram gegn betri vitund,“ segir í ályktun sem aðalfundur Svínaræktarfélags Íslands samþykkti í gær. Félagið harmar þá „neikvæðu, villandi og ósönnu umræðu um svínaræktina í landinu sem talsmenn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa staðið fyrir að undanförnu“.
Talsmenn Samtaka verslunar og þjónustu hafa m.a. haldið því fram að svínaræktin sé í eðli sínu ekki landbúnaður, ekki íslenskur atvinnuvegur, heldur iðnrekstur sem byggir starfsemi sína að öllu leyti á innfluttum aðföngum og erlendu vinnuafli. Einnig hefur verið fullyrt að lækka megi verð á svínakjöti um 30-40% með því að afnema allar hömlur á innflutningi kjöts.
Svínabændur segja í ályktun sinni að hér sé gengið lengra í rangfærslum en svo að hægt sé að láta ósvarað. Þeir benda á eftirfarandi atriði máli sínu til stuðnings.
„ Svínarækt hefur verið stunduð á Íslandi allt frá landnámi, að undanskildu rúmlega tveggja alda tímabili á 17. og 18. öld.
Lengst af hefur búgreinin verið rekin sem aukabúgrein með öðrum búgreinum en seinustu áratugina í vaxandi mæli sem aðalbúgrein svínabænda.
Íslensk svínarækt hefur alltaf notað innlend aðföng eins og kostur er og hin síðari ár hefur hlutdeild innlends fóðurs stóraukist með vaxandi kornrækt og á því sviði eru miklir sóknarmöguleikar.
Svínaræktin, eins og annar landbúnaður, þarfnast landrýmis, m.a. fyrir áburðinn sem dýrin skila af sér og sem nýtist í ræktun, annaðhvort á fóðri í svínin sjálf eða fyrir aðrar búgreinar, og einnig til uppgræðslu lands.
Allt tal um að þessi búgrein sé ekki jafn þjóðlegur atvinnurekstur og önnur atvinnustarfsemi, m.a. vegna þess að dæmi eru um erlent vinnuafl í greininni, er fáránlegt, ekki síst í ljósi þess að erlent vinnuafl er til staðar í flestum atvinnugreinum á Íslandi. Eða er sjávarútvegur og fiskvinnsla, verslun, veitinga- og hótelrekstur, svo dæmi sé tekið, ekki lengur þjóðlegir atvinnuvegir fyrir þá sök að fjöldamargir útlendingar vinna í þessum greinum? Þetta eru forkastanleg ummæli í ætt við fordóma.
Fullyrðingar um að búgreinin sé ekki landbúnaður er einfaldlega rakalaust bull sem sett er fram gegn betri vitund. Skv. alþjóðlegum viðurkenndum skilgreiningum er landbúnaður það að yrkja jörðina í víðum skilningi og halda dýr til búvöruframleiðslu.
Svínaræktin í landinu er hlekkur í þeirri keðju sem landbúnaðinn myndar. Brestur í þeim hlekk veikir að sjálfsögðu keðjuna alla.
Rétt eins og önnur búvöruframleiðsla sparar svínaræktin erlendan gjaldeyri og er ekki vanþörf á.
Hagtölur færa sönnur á að svínakjötið hefur haldið aftur af hækkunum neysluvísitölu seinustu áratugina og er í dag á sambærilegu verði til neytenda og í þeim löndum í Vestur-Evrópu sem raunhæft er að við berum okkur saman við. Hefðu aðrir, og þar á meðal verslunin í landinu, náð sama árangri í hagræðingu og lækkun vöruverðs og svínabændur, væru lífskjör landsmanna til muna betri.
Heilbrigðisástand íslenska svínastofnsins er með því besta sem gerist í heiminum og það tryggir neytendum holla og góða vöru.
Eins og önnur matvælaframleiðsla í landinu stuðlar svínaræktin að matvælaöryggi landsmanna.
Hömlulaus innflutningur á svínakjöti getur ógnað þessu öryggi og um leið heilbrigðisástandi alls innlends búfjár.
Íslenskir svínabændur kveinka sér ekki undan gagnrýni og málefnalegri umræðu sem sett er fram af þekkingu, sanngirni og heiðarleika, en frábiðja sér umræðu af því tagi sem talsmenn SVÞ hafa tileinkað sér að undanförnu og á sér fáar hliðstæður.“