Stelpurnar við stjórnvölinn

Þrjár ungar konur, fæddar á árunum 1980-1986, fara með völdin í útgerðar- og íþróttabænum Grindavík og þótt þær komi hver úr sinni átt í pólitík gengur samstarfið vel. Hvort það má þakka kyni þeirra eða ungum aldri skal ósagt látið, en þær gerðu samkomulag strax í upphafi kjörtímabils um að stunda ekki gamaldags valdabaráttu og hrossakaup.

Á kaffihúsinu Bryggjunni er mikið líf á þriðjudagskvöldi og sama má segja um Grindavíkurhöfn sem útsýni er yfir. Hvert skipið á fætur öðru kemur inn til löndunar og peningalyktin liggur í loftinu þegar blaðamaður sest niður með ungu konunum þremur sem skipa bæjarráð Grindavíkur og ákváðu að snúa baki við „gamaldags pólitík“ eins og þær kalla hana.

Róbert bæjarstjóri „einn af stelpunum“

Bryndís Gunnlaugsdóttir, 32 ára, er oddviti Framsóknarflokksins og forseti bæjarstjórnar. Kristín María Birgisdóttir, 33 ára, er formaður bæjarráðs og oddviti Lista Grindvíkinga og Marta Sigurðardóttir, 26 ára, situr í bæjarráði fyrir Samfylkinguna.

Þær útskýra strax að það hafi ekki verið nauðsynlegt að mynda meirihluta þriggja flokka, tveir hefðu dugað til, en samstaðan var breið og grundvöllurinn fyrir samvinnu hefur reynst góður. Ný bæjarstjórn byrjaði á því eftir kosningar að setjast niður með stefnuskrár allra flokka, raða þeim upp í excel-skjal og finna út hvaða mál væru sameiginleg.

Fyrsta vel heppnaða samvinnuverkefni kjörtímabilsins sem þegar allir flokkar komu sér saman um að ráða Róbert Ragnarsson sem óháðan bæjarstjóra. „Hann er svolítið móðgaður að vera stundum „einn af stelpunum,“ segir Bryndís og útskýrir hlæjandi að oft fari hugmyndavinnan fram í tölvupóstum milli allra sem hefjist á orðunum „Sælar stelpur“.

Ekkert baktjaldamakk

En hver er þessi gamaldags pólitík og hvernig er þeirra nálgun öðru vísi?

Bryndís: „Það sem við lítum á sem gamla pólitík er þessi klassíski tveggja flokka meirihluti, hvort sem það er í bæjarstjórn eða Alþingi, og flokkarnir þurfa alltaf að leysa sín mál bak við tjöldin til að geta staðið saman gegn minnihlutanum. Þessi stöðuga valdabarátta þýðir að það er alltaf verið að plotta: „Ég skal samþykkja það sem þú vilt ef þú samþykkir það sem ég vil.“ Þá er sjálfur bæjarráðsfundurinn bara orðinn afgreiðslufundur fyrir meirihlutann og jafnvel þótt minnihlutinn komi með góða tillögu að breytingum bakkar meirihlutinn ekki til að líta ekki út fyrir að vera veikur.“

Kristín: „Þessi aðferð, ef þú klórar mér á bakinu þá klóra ég þér, ég get sagt það alveg fullum fetum að hún gengur ekki hjá okkur. Það er svo fjarri okkar hugmyndafræði, sem er sú að þú eigir að geta haft skoðun og staðið með henni án þess að lúta öðru valdi eins og oft gerist í pólitík. Og ef nýjar upplýsingar koma fram þarftu að vera bógur til viðurkenna að þú hafir haft rangt fyrir þér og skipta um skoðun.“

Marta: „Hjá okkur skiptir ekki máli hvaðan hugmynd kemur, ef hún er góð og ef það er meirihluti fyrir henni þá nýtur hún fylgis. Þetta er eitthvað sem maður væri til í að sjá meira af inni á Alþingi. Við reynum að fá alla að borðinu strax í upphafi og ná samstöðu því þegar allir eiga eitthvað í málinu þá er vilji hjá öllum til að fylgja því til enda.“

Kristín: „Oft er líka talað um að stjórnmálamenn hugsi í kjörtímabilum og stefni fyrst og fremst að því að ná endurkjöri. Þá verður til dæmis uppbygging of hröð, svo flokkurinn geti sýnt að hann skilji eitthvað af stefnumálunum eftir í lok tímabilsins. Þetta er einmitt eitt af því sem okkur fannst ekki ganga upp, hagsmunir bæjarbúa verða að vera hafðir að leiðarljósi og þess vegna höfum við, að mínu mati, stillt því í hóf sem við erum að gera og við höfum tekið erfiðar ákvarðanir, jafnvel þótt það skili sér ekki í endurkjöri.“

Bryndís: „Næstu kosningar verða kannski erfiðar út af því að málin hafa verið unnin þannig að það er enginn flokkur sem getur eignað sér heiðurinn af þeim. En ef fólk vill breyta stjórnmálamenningunni verður það að vera viðbúið því að deila völdunum. Þetta er eitthvað sem tekur tíma að þróa, við erum svo ungt lýðræðisríki. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin held ég t.d. að í Danmörku sé minnihlutastjórn frekar regla en undantekning og þar þykir mjög eðlilegt að semja um málin við stjórnarandstöðu.“

Aldur eða kyn ekki aðalmálið

Róstusamir tímar eru að baki í pólitíkinni í Grindavík. Á kjörtímabilinu 2006-2010 sprakk meirihlutinn þrisvar, miklar deilur komu upp bæði milli flokka og innan flokka. „Það varð öllum ljóst að það var eitthvað þarna sem gekk ekki upp, svona væri ekki hægt að vinna. Þess vegna varð svona breið samstaða innan allra flokka um að við þyrftum að fara aðrar leiðir,“ segir Marta.

Nýtt kjörtímabil hófst með hefðbundnum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en frá upphafi var lagt upp með náið samstarf við minnihlutann. Á miðju kjörtímabili slitnaði meirihlutasamstarfið en nýtt var myndað strax á grunni samvinnunnar sem á undan hafði farið. 6 af 7 bæjarfulltrúum frá þremur listum eru nú saman í meirihluta og einn Sjálfstæðismaður í minnihluta.

Það sem sameinar nýja meirihlutann er svipuð sýn á hvernig málin skulu unnin. Bryndís, Marta og Kristín María koma hver úr sinni áttinni í pólitík og játa það alveg að þótt samvinnan gangi vel sé oft tekist á og hurðum jafnvel skellt. Ef ekki tekst að ná fram málamiðlun eru greidd atkvæði, sem falla oftar en ekki þvert á flokka því flokkslínan hefur ekki verið lögð fyrirfram.

Óhjákvæmilegt er að spyrja hvort rekja megi vilja til málamiðlana og hófstilltan  valdaþorsta til þess að þarna séu ungar konur á ferðinni?

Marta: „Ég hef ekki tengt þetta við að við séum konur eða að við séum ungar, heldur frekar það að við séum ungar í pólitík, ný kynslóð.“ 

Bryndís: „Mér finnst Grindvíkingar hugrakkir þegar þeir kusu flokka sem leiddir voru af okkur 29 og 30 ára gömlum. Ég held það hafi verið vegna þess að þeir sáu eitthvað nýtt, öðruvísi talanda og öðruvísi pólitík.“

Kristín: „En það var ákveðinn hópur úti í samfélaginu sem var vanur átakastjórnmálum og hafði gaman af átökunum sem fór að ókyrrast eftir smátíma og spyrja: „Hvað er í gangi? Hvar eru átökin? Eruð þið ekki að gera neitt?““

Konur í áhrifastöðum sagðar gribbur

Aðspurðar segja þær aldur þeirra og kyn aldrei hafa komið sérstaklega til tals innan Grindavíkur en þær heyri það stundum utan að sér að það veki athygli. Þrátt fyrir það segja þær ekki hægt að neita því að konur þurfi oft að leggja meira á sig til að sanna sig.

Marta: „Maður hefur það stundum á tilfinningunni að fólk haldi að maður sé auðveldara skotmark fyrir að vera ung kona. Kannski er það vegna þess að hagsmunaaðilarnir muna bara eftir manni sem litlu stelpunni í grunnskólanum.“

Bryndís: „Ég held að allar konur sem komast í áhrifastöður, hvort sem það er í pólitík eða annars staðar, finni fyrir því að ef við erum ákveðnar þá erum við flokkaðar sem frekjur eða gribbur, frekar en ákveðnar eða staðfastar.“

Kristín: „Konur hafa þurft að sanna sig á vettvangi stjórnmála og í stjórnum fyrirtækja og þær hafa sannarlega gert það, en ég held að ef við hefðum átt eitthvað á brattann að sækja sem ungar konur þá hefði kosningin ekki farið eins og hún fór. Við fengum mjög góða útkomu.“

Bryndís: „Jafnrétti í samfélaginu hefur ekki verið að fullu náð, en þá er ég samt ekki að segja að ég gjaldi fyrir að vera kona vegna þess að ungum konum í stjórnmálum almennt er hampað og þær hvattar áfram. En það breytir því ekki að þessi viðhorf eru til staðar. Mín tilfinning er til dæmis sú að fólk tekur því ekki sem gefnu að við séum klárar fyrr en við erum búnar að sýna fram á það.

Sem dæmi nefnir Bryndís stefnuna um að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Við það hafi kviknað umræða um að til að finna hæfar konur þurfi þær að fara á námskeið fyrst. „Aldrei þurftu þessir karlmenn, sem fóru beint úr háskólanum inn í stjórnir fyrirtækja, að fara á námskeið.“ Hún bendir sömuleiðis á algengt munstur í blönduðum stjórnum þar sem konur endi í styðjandi hlutverkum sem ritarar eða varaformenn.

Eiga óléttar konur ekki erindi?

Marta: „Þetta er að breytast, það er alveg á hreinu, en ég má samt til með að nefna það síðustu forsetakosningarnar þar sem þetta kom svo skýrt fram því þegar Þóra fór í framboð var mikið talað um að hún væri ung, ólétt kona með börn. Ég var sjálf með þá stereótýpu í höfðinu að fordómarnir væru mest hjá miðaldra körlum í jakkafötum, að þeim fyndist konur á þessum aldri ekki eiga heima í stjórnmálum. Svo kom bara í ljós að það voru líka ungar konur með sömu skoðun. Konur á mínum aldri.

Marta er sjálf ólétt að sínu öðru barni. Fyrir á hún 4 ára gamlan son með eiginmanni sínum sem er sjómaður. „Ég kemst ekki hjá því að hugsa núna hvað þetta fólk sé að segja um mig. Ætli þessu fólki, og þessum konum, finnist ég ekki eiga neitt erindi af því ég eigi bara að vera að hugsa um börnin?“

Bryndís: „Og þá getum við tekið næstu umræðu, sem er að stjórnmálavettvangurinn er ekki fjölskylduvænn og það bitnar sérstaklega á konum á meðan samfélagið er ennþá á því að það sé þeirra svið. Ég myndi ekki kalla þetta kynjamisrétti, þetta er bara innbyggt í fólk og við þurfum að snúa því við.“

Lúxusvandamál í kreppunni

Klisjan er sú að karlar sinni fjármálunum en konur mjúku málunum. Þessar ungu konur hafa hins vegar snúið rekstri bæjarins við. Í upphafi kjörtímabilsins var rekstur bæjarins um 400 milljónir kr. í mínus en hann er nú kominn í plús og um síðustu áramót var bæði útsvarið lækkað og fasteignaskattarnir.

Kristín: „Við tókum við miklum hallarekstri. Skuldastaðan var í lagi, og er enn  betri núna, en það var búið að þenja reksturinn það mikið út að tekjur dugðu ekki fyrir gjöldum. Ef þú ætlar að nota peningana af bókinni til að reka batteríið, þá ertu dálítið að pissa í skóinn þinn.“

Bryndís: „Núna erum við eiginlega bara með lúxusvandamál. Við erum að fara í 700-800 milljóna króna framkvæmdir á íþróttasvæðinu á næstu þremur árum auk þess sem við ætlum að byggja nýtt bókasafn og tónlistarskóla. Þetta gerum við allt án þess að taka lán og á sama tíma settum við okkur þá stefnu að Grindavíkurbær fari aldrei undir milljarð á bankabók. Þetta er okkar sjóður.“

Marta: „Aðaldeilumálið er hvernig við ætlum að eyða peningum, sem er auðvitað lúxusvandamál. Fólk skilur ekki alltaf að sama hvað þú átt mikinn pening inni á bankabók þá þarf reksturinn alltaf að standa undir sér. Ef við ætluðum að nota þennan pening í reksturinn þá fuðrar hann upp á smátíma.“

Vilja vera fyrirmyndir

Það er auðheyrt á þeim stöllum að þær eru stoltar af sínu starfi og vonast til að geta orðið öðrum ungum konum hvatning. Sveitarstjórnarkosningar verða á næsta ári og þær minna á að ef nýliðar vilja láta til sín taka þurfi þeir að hugsa sér til hreyfings með haustinu því of seint sé að gera það kortér í kosningar.

Bryndís: „Ég held við séum eina bæjarráðið sem er bara skipað konum og við erum klárlega yngsta bæjarráð á landinu. Það er oft talað um að það vanti fyrirmyndir fyrir stelpur og ég sé ekki betri fyrirmynd í pólitík en þrjár ungar konur sem eru að reka sveitarfélag. Þessar konur hafa snúið við rekstri bæjarins vegna þess að við kunnum á fjármál og kunnum að taka erfiðar ákvarðanir. Auðvitað hafa þær konur sem voru á undan mér í pólitík verið ákveðnar fyrirmyndir og vonandi getum við þrjár, með því að vera áberandi og jafnvel trana okkur meira fram, sýnt fram á hvað konur eiga mikið erindi í pólitík.“

Marta: „Vonandi eru fleiri ungar konur sem sjá okkur og hugsa að þá geti þær þetta líka. Auðvitað er maður stoltur af að taka þátt í svona, líka út af því að þetta gengur upp. Við  stöndum okkur og vonandi erum við taka þátt í að skap nýja stjórnmálahefð í Grindavík, sem á kannski eftir að smita út frá sér.“

Marta Sigurðardóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Kristín María Birgisdóttir á Bryggjunni.
Marta Sigurðardóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Kristín María Birgisdóttir á Bryggjunni. mbl.is/Golli
Bæjarstjórnarfulltrúarnir Kristín María Birgisdóttir, Marta Sigurðardóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir í Grindavíkurhöfn.
Bæjarstjórnarfulltrúarnir Kristín María Birgisdóttir, Marta Sigurðardóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir í Grindavíkurhöfn. mbl.is/Golli
Konum fer fjölgandi í sveitarstjórnum landsins en staðan í Grindavík …
Konum fer fjölgandi í sveitarstjórnum landsins en staðan í Grindavík er engu að síður óvenjuleg eins og sjá má á meðfylgjandi staðreyndum. Smellið til að stækka. Graf/Elín Esther
Landað úr Gulltoppi í Grindavíkurhöfn.
Landað úr Gulltoppi í Grindavíkurhöfn. mbl.is/Golli
Horft yfir Grindavík.
Horft yfir Grindavík. Ljósmynd/Grindavíkurbær
Marta Sigurðardóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Kristín María Birgisdóttir á Bryggjunni.
Marta Sigurðardóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Kristín María Birgisdóttir á Bryggjunni. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert