Dagvara hefur hækkað um 6,1%

Það kostar 6,1% meira að fylla körfuna í dag heldur …
Það kostar 6,1% meira að fylla körfuna í dag heldur en fyrir ári síðan. mbl.is/Hjörtur

Velta í dagvöruverslun jókst um 8% á föstu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 14,5% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í mars um 5,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hefur hækkað um 6,1% á síðastliðnum 12 mánuðum.

 Sala áfengis jókst um 11,8% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 13,6% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslunar í mars um 3,4% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1,6% hærra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Þess ber að gæta að páskarnir voru í mars í ár en apríl í fyrra.

 Fataverslun minnkaði um 4,2% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og minnkaði um 1,7% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta fataverslunar í mars um 3,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á fötum hækkaði um 2,6% frá sama mánuði fyrir ári. 

Velta skóverslunar jókst um 15,6% í mars á föstu verðlagi og jókst um 13,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð fyrir ári. Verð á skóm hefur lækkað um 1,5% frá mars í fyrra.

Velta húsgagnaverslana dróst saman um 4,1% í mars frá sama mánuði fyrir ári á föstu verðlagi og jókst um 1,0% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum var 5,4% hærra í mars síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra. Velta í sölu skrifstofuhúsgagna jókst um 17,1% í mars síðastliðnum samanborið við sama mánuð ári fyrr á föstu verðlagi.

Velta sérverslana með rúm jókst um 0,4% milli ára á föstu verðlagi.

Velta í sölu á tölvum í mars jókst um 20,9% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og farsímasala jókst um 31,3%. Aukning á sölu minni raftækja, svokallaðra brúnvara, nam 16,9% á föstu verðlagi og sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 5,3% á milli ára.

Helsta skýringin á aukinni verslun með mat og áfengi í mars síðastliðnum í samanburði við sama mánuð í fyrra er sú að páskarnir voru í mars á þessu ári en í apríl í fyrra. Töluverðar verðhækkanir hafa orðið á dagvörum að undanförnu á meðan dregið hefur úr hækkunum á áfengi. 

Fataverslun nær sér ekki á strik

Fataverslun hefur ekki náð að rétta úr kútnum eftir hrun. Hið sama verður ekki sagt um skóverslun sem hefur heldur aukist. Á þremur fyrstu mánuðum ársins dróst fataverslun saman að raunvirði um 2,6% miðað við sama tímabil í fyrra en skóverslun jókst um 13,6% á sama tíma. Húsgagnaverslun dróst saman um 1,1% á þessu sama tímabili að raunvirði.

„Athyglisvert er að sjá þann mun sem er á þróun mismunandi tegunda sérverslana. Á meðan fataverslun og húsgagnaverslun eiga enn erfitt uppdráttar er töluverður vöxtur í verslun sem selur raftæki, tölvur og farsíma. Erfitt er að skýra þennan mun með því að endurnýjunarþörf sé meiri í raftækjum en fötum. Líkleg skýring er að fatakaup eigi sér stað í auknum mæli erlendis.

Samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar fer verð á tölvum og farsímum lækkandi á meðan aðrar vörur hækka í verði. Þannig lækkaði verð á farsímum um 11,8% og verð á tölvum lækkaði um 9,9% frá mars í fyrra. Verð á „brúnum“ raftækjum, eins og sjónvörpum og hljómflutningstækjum, lækkuðu á sama tíma í verði um 4,7% en „hvítvörur“ í eldhús hækkuðu hins vegar um 6,0%,“ segir í fréttatilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Almennt eru ekki miklar breytingar í kaupmætti og neyslu. Þannig var kaupmáttur launa í febrúar 0,4% meiri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Fram kemur í tölum Seðlabankans að greiðslukortavelta heimilanna var aðeins 0,1% meiri í mars en í sama mánuði í fyrra. Hins vegar var erlend greiðslukortavelta hér á landi í mars 37,5% meiri en fyrir ári síðan, eða liðlega 5,2 milljarðar króna. Þannig var velta greiðslukorta erlendra ferðamanna 9,7% þeirrar upphæðar sem heimili landsins greiddu með kortum sínum í síðasta mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert