Grunaði strax hryðjuverk

„Ég fékk strax á tilfinninguna að um hryðjuverk væri að ræða,“ segir Erla Gunnarsdóttir hlaupari. „Ég var komin í gegnum markið og var að taka við verðlaunapeningi þegar sprengingin varð. Önnur sprenging kemur strax í kjölfarið. Fólk vissi ekkert hvað hafði gerst.“

 Marksvæðinu var strax lokað og þeir sem voru ekki komnir í mark voru stoppaðir strax af. Hvað var það fyrsta sem fór í gegnum hugann? „Það var ansi margt en ég hugsaði strax um fólkið sem var á brautinni. Hvar eru allir? Hvað er að gerast? Hvað var þetta?“

„Við höfum bara verið að knúsa alla sem maður hefur hitt, svo hittumst við öll á eftir. Við þurfum á því að halda,“ segir Erla og þakkar guði fyrir að allir séu heilir á höldnu eftir voðaverk dagsins. 

„Þetta er hræðilegt að maraþonhlaup fái ekki að vera í friði. Þetta var fallegur dagur og mannlífið var iðandi í borginni af hlaupurum. Allir vildu allt fyrir alla gera. Svo gerist þetta í markinu og maður er eins og kýldur niður. Það er ekki hægt að lýsa því neitt frekar,“ segir Erla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert