„Mínúta sem skilur á milli“

Vettvangur sprenginganna í Boston er afar blóðugur og mikið öngþveiti …
Vettvangur sprenginganna í Boston er afar blóðugur og mikið öngþveiti ríkti þar í dag. AFP

„Ég var náttúrlega bara að hlaupa mitt maraþon og rétt komin yfir línuna þegar ég heyrði þessar sprengingar, fyrst varð ein og svo önnur,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, maraþonhlaupari í Boston. „Sprengjan springur þarna rétt fyrir aftan mig. Ég fann höggbylgju og síðan varð algjör skelfing. Þetta er ótrúlega mikil sorg og algjör skelfing.“

„Ég lít til baka og sé reyk og eld og það er rétt mínúta sem skilur milli mín og staðarins þar sem sprengjan sprakk. Okkur var þá bara mokað í burtu. Það sem var óhugnanlegast var skelfingin í fólkinu. Ég hef aldrei upplifað slíkt áður og skildi þetta ekki alveg,“ segir Ingibjörg. „Þetta er miklu meira en maður gerir sér grein fyrir. Það ganga hér menn milli hótelherbergja til að kanna hvort allir séu komnir inn heilir á húfi.“

Gleði breyttist í sorg

„Við sem hlupum upplifum þetta örugglega öðruvísi en þeir sem horfðu á þetta. Þegar maður sá svo skelfinguna áttaði maður sig á skelfingunni í allri borginni,“ segir Ingibjörg. „Ég er búin að taka hér grátköst og þó svo ég hljómi ekki í sjokki núna, þá er ég í sjokki,“ segir Ingibjörg, sem er ótrúlega róleg og yfirveguð miðað við aðstæður. 

„Þetta er mjög skrýtið. Ég upplifði mikla gleði við að klára hlaupið sem breyttist svo í hrikalega mikla sorg. Þegar maður er búinn að hlaupa 42 kílómetra er maður á síðustu dropum líkamans og þá gerist þetta. Maðurinn minn hringir í mig og ég bara græt. Hann hélt bara að ég hefði ofkeyrt mig. En við Íslendingarnir erum öll heil og í góðum málum, bæði hlauparar og fylgdarlið. Við hittumst núna klukkan hálfsjö (22.30 að íslenskum tíma) og við vitum ekkert hvað við eigum að gera, hvar við getum borðað eða svoleiðis.“

„Við ætlum bara að hittast og taka stöðuna en ég veit ekki hvað úr verður. Við höfum örugglega gott af því sem hópur að hittast því það eru allir í sjokki,“ segir Ingibjörg. „Svo á að vera maraþon í London um næstu helgi og það er ekkert víst hvort það verður haldið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert