Árið 1990 var losun gróðurshúsalofttegunda á Íslandi 3,5 milljónir tonna CO2-ígilda. Árið 2011 var losunin 4,5 milljónir tonna CO2-ígilda og hefur losun því aukist um 26% frá árinu 1990 samkvæmt því sem fram kemur í nýrri skýrslu sem Umhverfisstofnun skilaði í gær til Sameinuðu þjóðanna um losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 1990 til 2011.
Losunin dróst hins vegar saman um 4% frá árinu 2010 og má einkum rekja þá minnkun til minni losunar frá álframleiðslu og minni losunar frá fiskiskipum. Losunin var mest árið 2008, eða tæplega 5 milljónir tonna CO2-ígilda, eftir því sem fram kemur í skýrslunni.
Losun gróðurhúsalofttegunda hefur hinsvegar síðan þá dregist saman um 13% og segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun að þá minnkun megi einkum rekja til minni losunar frá stóriðju þar sem myndun PFC í álverum hefur minnkað vegna betri framleiðslustýringar. En fleiri þættir eru nefndir eins og minni eldsneytisnotkun við byggingarstarfsemi, við fiskveiðar og í samgöngum almennt.
Ennfremur hefur sementsframleiðsla dregist saman og losun frá landbúnaði minnkað þar sem notkun tilbúins áburðar hefur dregist saman í kjölfar hækkandi áburðarverðs.
Minni losun á sér því helst tvær skýringar, annars vegar bætt framleiðslustýring í álverum og hins vegar áhrif samdráttar í hagkerfinu frá 2008. Losun á hvern íbúa á Íslandi árið 2011 var 13,8 tonn, en meðaltal ríkjanna á EES-svæðinu var 10,5 tonn.
Skýrslu Umhverfisstofnunar, sem er upp á 334 síður, má finna hér.