Skíðamaðurinn sem lenti í snjófljóðinu við Sauðanes fyrr í kvöld virðist minna slasaður en talið var í fyrstu samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri.
Ekki virðist sem um beinbrot hafi verið að ræða en einhverjir hnéáverkar.
Tilkynning um flóðið barst lögreglu kl. 18:38 í kvöld. Maðurinn, sem var fararstjóri með fjórum bandarískum skíðaferðamönnum, lenti í því þegar hann var að kanna aðstæður á svæðinu. Þyrla sem var með hópnum og flutti hann upp á fjallið var í nágrenninu og var maðurinn fluttur með henni til Akureyrar þar sem hann gekkst undir læknisrannsókn.
Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla var lokaður í um þrjá klukkutíma vegna flóðsins sem var mjög stórt og um 100 metra breitt, að sögn lögreglunnar á Dalvík. Svæðið sem flóðið féll á mun vera þekkt snjóflóðasvæði og þar féll stórt snjóflóð í janúar sem lokaði veginum.