Skammast sín fyrir flokkinn sinn

Magnús H. Norðdahl, varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
Magnús H. Norðdahl, varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

„Ég skammast mín fyrir flokkinn minn, Samfylkinguna því í dag undirritaði fyrrverandi formaður og utanríkisráðherra með velvild fyrrverandi formanns og forsætisráðherra, fríverslunarsamning við Kína, stærsta alræðisríki veraldar sem gefur „blaff“ fyrir mannréttindi almennings, launafólks og frjálsra samtaka launafólks,“ segir Magnús M. Norðdahl, varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi á facebook-síðu sinni í kvöld.

„Þetta gera þau án nokkurra skilyrða og utanríkisráðherra virðist ganga það helst til að vinna einhverja pissukeppni við evrópska kollega sína. Svona gera menn ekki en þegar vel er að gáð á þetta góðan samhljóm með fyrrverandi flokksbróður utanríkisráðherra, forseta lýðveldisins sem talað hefur fyrir þessu lengi og sem hefur helst unnið sér það til skammar á forsetatíð sinni, auk þess að lofa Kínversk stjórnvöld, að nudda sér utan í indversk stjórnvöld sem átölulaust láta að þar sé að finna 2/3 af öllum "þrælum" sem enn finnast í heiminum, a.m.k. 20 milljónir einstaklinga, aðallega börn og konur,“ segir Magnús í færslunni.

Kjördagur erfiður mörgum jafnaðarmönnum

Þá segir hann að eina glætan sé að núverandi formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, hafi lagst gegn þessu ráðslagi og verið settur til hliðar. Það undirstingi þau mistök sem það hafi verið að skilja á milli formannsembættisins og þeirra valda sem því eigi að fylgja og vísar þar líklega til embættis forsætisráðherra. Hann segir kjördag verða erfiðan fyrir marga jafnaðarmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert