„Um leið og atvinnuverkefnin taka við sér í Helguvík þá er tiltölulega fljótt verið að snúa við blaðinu,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, aðspurður út í tap á rekstri bæjarsamstæðunnar.
Samkvæmt ársreikningi Reykjanesbæjar fyrir 2012 er tapið 433 milljónir króna eftir afskriftir og fjármagnsliði. Hinsvegar er afgangur af almennum rekstri bæjarins 708 milljónir króna eftir afskriftir og fjármagnsliði.
„Það er sterk EBITDA í samstæðu, um 2,8 milljarðar eða um 20% af tekjum. Þetta eru sterkar tölur sem koma inn í samstæðuna en breytast hins vegar þegar horft er til Helguvíkur sem tapar um 670 milljónum,“ segir Árni og bætir við: „Eina leiðin, og sú sem er mjög fær, er að það fari nú að birta til í þessum málum og við náum að nýta þau stóru atvinnutækifæri sem hér bíða.“