Dæmdur fyrir árás á Þórshöfn

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á Þórshöfn í fyrra.

Maðurinn réðst á gamlan mann sem nú hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot. Ungi maðurinn var sýknaður af ákæru um tilraun til manndráps.

Árásin er talin hafa verið uppgjör vegna gamalla mála, samkvæmt frétt RÚV í hádegisfréttum.

Það var í febrúar í fyrra sem maðurinn braust inná heimili ríflega sjötugs manns á Þórshöfn og gekk í skrokk á honum með þeim afleiðingum að hann slasaðist alvarlega og hlaut meðal annars heilablæðingu. Hann hefur ekki enn náð fullri heilsu. Ungi maðurinn var ákærður fyrir húsbrot, eignaspjöll og tilraun til manndráps. Hann sagði fyrir dómi að hann hefði ekki ætlað sér að ráða manninum bana. Hann hefði ráðist á manninn vegna meintra kynferðisbrota hans.

Snemma á þessu ári stigu tvær konur fram og kærðu gamla manninn fyrir kynferðisbrot. Þær saka hann um að hafa brotið á sér kynferðislega fyrir áratugum síðan þegar þær voru börn að aldri. Lögreglan á Akureyri hefur lokið rannsókn þeirra mála og sent þau ríkissaksóknara en málin eru að líkindum fyrnd. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka