„Það er ekkert í boði sem ég ræð við“

Í kosningabaráttunni hefur sjónum aðallega verið beint að því að …
Í kosningabaráttunni hefur sjónum aðallega verið beint að því að leiðrétta kjör þeirra sem eiga fasteignir. Kristinn Ingvarsson

Í kosningabaráttunni hefur sjónum aðallega verið beint að því að leiðrétta kjör þeirra sem eiga fasteignir. Minna er rætt um þá sem þurfa að greiða stóran hluta tekna sinna í leigu. Alþýðusamband Íslands, ASÍ, segir ástandið á húsnæðismarkaði óviðunandi, þörf sé á fleiri valkostum en nú eru í boði og leggur til nýtt húsnæðiskerfi. Einstæð móðir á leigumarkaði segist ekki ráða við leiguverðið og þarf að flytja í þriðja skiptið á þremur árum.

ASÍ hefur lagt til að nýtt félagslegt húsnæðiskerfi verði tekið upp, svokölluð dönsk leið sem er að mörgu leyti áþekk verkamannaíbúðakerfinu sem var lagt af árið 1999.  Fjárhagsvanda margra fjölskyldna megi rekja til þess að húsnæðiskostnaður sé allt of hár og þær hafi hvorki ráð á því að kaupa né leigja húsnæði við núverandi aðstæður.

Í tillögunum er lagt til að kaupverð félagslegra íbúða verði fjármagnað með 2% framlagi íbúa, sem þeir fá endurgreitt þegar þeir flytja út, 14% sé stofnfé frá viðkomandi sveitarfélagi og 84%sé  lán frá húsnæðislánastofnun.

„Þarna er verið að leggja til kerfi sem á að gera lágtekjufólki kleift að vera í öruggu húsnæði og að til komi samfélagslegur stuðningur sveitarfélaganna og ríkisins til þess að tryggja það. Sumt er líkt verkamannaíbúðakerfinu gamla, en annað er ólíkt. Til dæmis er ekki gert ráð fyrir eignamyndun eins og í gamla kerfinu, þar sem fólk gat eignast íbúðirnar á löngum tíma, heldur er þetta leigukerfi þar sem fólk fær framlag sitt greitt til baka,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, sem segist hafa orðið var við mikla þörf meðal félagsmanna fyrir fleiri úrræði í húsnæðismálum.

„Við erum að tala um húsnæðiskerfi sem kallar á umtalsvert framlag sveitarfélaga og ríkissjóðs. Framlag sveitarfélaganna getur t.d. verið í formi lóða. Við teljum að kerfið gæti orðið sjálfbært á einni kynslóð, eða rúmlega það og samkvæmt okkar mati á stöðu fólks í dag erum við að tala um 20-25.000 íbúðir þegar kerfið verður fullskapað.“

Óþolandi óöryggi á leigumarkaði

Halldór segir að þarna sé sérstaklega horft til lágtekjuhópa, hvort sem það er ungt fólk sem er að byrja búskap eða fólk með lágar tekjur. „Að fólk fái möguleikinn á að búa í tryggu húsnæði. Ókostirnir við leigumarkaðinn í dag eru t.d. að þar er verð mjög hátt, það endurspeglar að hluta til háan bygginga- og vaxtakostnað. Hins vegar býr fólk á leigumarkaði við óþolandi óöryggi sem ræðst ekki síst af því að verulegur hluti þeirra íbúða sem eru á leigumarkaði eru í eigu einstaklinga sem kannski eru að afla sér tekna tímabundið.“

Við leit á þriggja herbergja leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu á nokkrum leiguvefsíðum má t.d. sjá 55 fermetra íbúð til leigu á 165.000 krónur á mánuði, önnur, sem er tæpir 90 fermetrar, er leigð á 190.000 krónur á mánuði og enn önnur, sem er 83 fermetrar, er leigð á 185.000 á mánuði. Ekki ráða allir ekki við að greiða slíkar upphæðir í leigu, meðal þeirra er Jóhanna Magnúsdóttir, einstæð móðir, sem hefur leitað að íbúð til leigu í Hafnarfirði undanfarið hálft ár, eða síðan í október.

„Ég er búin að reyna allt“

„Ég á enga ættingja sem ég get flutt inn á  með börnin mín; ætli ég endi ekki í einhverju neyðarskýli í sumar með húsgögnin í geymslu,“ segir Jóhanna. Hún hefur verið á leigumarkaði undanfarin þrjú ár. Á þeim tíma hefur hún flutt tvisvar, en í bæði skiptin voru eigendur íbúðanna með þær í útleigu tímabundið á meðan þær voru í sölu. Það sama gildir um íbúðina sem hún býr í núna, hún hefur verið seld.

„Það er ekkert í boði sem ég ræð við.  Ég er búin að reyna allt, ég hef verið á biðlista eftir félagslegri íbúð hjá Hafnarfjarðarbæ frá árinu 2010, en það er engin hreyfing á íbúðunum þar. Svo var ég á lista hjá Búseta en hafði ekki þá peninga sem þurfti til að fá íbúð þar og ég hef reynt að fá leiguíbúð hjá Íbúðalánasjóði; ekkert af þessu hefur gengið upp.“

Allir þurfa að eiga samastað

Jóhanna segir að henni hafi nýverið boðist Búsetaíbúð, en hún hafi þá þurft að greiða um þrjár milljónir í búseturétt og síðan á bilinu 150-160.000 á mánuði í búsetugjald. Leigan á þeim íbúðum á frjálsum leigumarkaði, sem gætu hugsanlega hentað henni, sé 170-200.000 krónur á mánuði. Þetta er henni ofviða, þrátt fyrir leigubætur. „Ég get ekki greitt þessar fjárhæðir í leigu.“

Eru nægileg úrræði til staðar að þínu mati fyrir fólk sem ekki á eigið húsnæði? „Nei, alls ekki. Staðan í samfélaginu er þannig að það þarf fleiri úrræði, fleiri íbúðir á verði sem fólk ræður við. Það þurfa allir að eiga tryggan samastað,“ segir Jóhanna.

Tugþúsundir eiga ekki eigið húsnæði

„Í allri þessari umræðu um skuldavanda heimilanna virðist það hafa gleymst að til eru tugir þúsunda Íslendinga sem eiga ekki húsnæði, fólkið sem er á leigumarkaði,“ segir Halldór. „Þessi hópur hefur gleymst í umræðunni,  en hann kallar á húsnæði á viðráðanlegu verði og getur skapað það öryggi sem fólk þar á að halda.“

Verkamannabústaðir voru eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar á fyrstu áratugum síðustu aldar. Er ASÍ að fara aftur í tímann? „Húsnæðismál hafa alltaf verið eitt af helstu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar og við höfum alltaf verið talsmenn þess að hér séu fjölbreyttar lausnir í húsnæðismálum,“ segir Halldór.

Voru  mistök að leggja Verkamannabústaðakerfið niður? „Já, við gagnrýndum það mjög á sínum tíma. Það voru mistök, ekki síst vegna þess að það kom ekkert í staðinn fyrir það.“

Frétt mbl.is: 70% ráðstöfunartekna í húsaleigu



Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambandsins.
Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambandsins. Ásdís Ásgeirsdóttir
Jóhanna Magnúsdóttir.
Jóhanna Magnúsdóttir.
Í tillögum ASÍ er lagt til að kaupverð félagslegra íbúða …
Í tillögum ASÍ er lagt til að kaupverð félagslegra íbúða verði fjármagnað með 2% framlagi íbúa, sem þeir fá endurgreitt þegar þeir flytja út, 14% sé stofnfé frá viðkomandi sveitarfélagi og 84%sé lán frá húsnæðislánastofnun. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert