Krafa um að Daníel verði borinn út

Daníel Jónsson, bóndi á Ingunnarstöðum, hefur hellt niður mjólk síðan …
Daníel Jónsson, bóndi á Ingunnarstöðum, hefur hellt niður mjólk síðan 12. nóvember. mbl.is/Golli

Landsbanki Íslands hefur krafist þess að Daníel Jónsson, bóndi á Ingunnarstöðum í Reykhólahreppi, verði borinn út af jörðinni. Lögmaður hans krefst þess að beiðninni verði hafnað. Daníel hefur í fimm mánuði beðið eftir svari frá atvinnuvegaráðuneytinu við kæru sem hann sendi vegna ákvörðunar Matvælastofnunar um að svipta hann starfsleyfi.

Matvælastofnun svipti Daníel starfsleyfi 12. nóvember sl. vegna athugasemda sem stofnunin gerði, m.a. vegna þess að neysluvatn stóðst ekki kröfur. Um þetta hefur m.a. verið fjallað í frétt á mbl.is og í ítarlegri frétt í janúar.

Hefur beðið eftir svari frá ráðuneytinu í fimm mánuði

Daníel kærði strax í nóvember ákvörðun Matvælastofnunar til atvinnuvegaráðuneytisins. Jafnframt óskaði hann eftir því að hann fengi að selja mjólk meðan ráðuneytið væri að svara bréfinu. Því hafnaði ráðuneytið, en hann hefur í fimm mánuði beðið eftir efnislegu svari frá ráðuneytinu.

Ólafur Kristinsson, lögmaður Daníels, segir með ólíkindum að ráðuneytið sé ekki búið að svara bréfinu. Andmælum hafi verið skilað í janúar og ráðuneytið ætti því að vera búið að svara kærunni. Hann bendir á að í stjórnsýslulögum séu ákvæði um málshraða og þau hafi verið túlkuð þannig að stjórnvald hafi 3-4 mánuði að afgreiða kæru.

Þegar haft sé í huga að Daníel sé búinn að hella niður mjólk í rúma fimm mánuði verði að telja að ráðuneytinu hafi borið að hraða sérstaklega afgreiðslu málsins. Hann bendir á að þetta mál varði líka fæðuöryggi búfjár á Ingunnarstöðum.

Íhuga skaðabótamál gegn Landsbankanum

Ólafur telur mikinn vafa leika á að Matvælastofnun hafi farið að lögum í þessu máli. Hann bendir á að Daníel hafi verið sviptur starfsleyfi á grundvelli laga um Matvælastofnun þar sem fjallað er um starfsleyfi. Hann hafi verið sviptur starfsleyfi á grundvelli þess að sýklalyf, hormónar eða aðskotaefni séu í mjólkinni. Þetta eigi ekki við í þessu tilviki. Það hafi vissulega fundist saurgerlar í neysluvatninu vegna óhapps, en það hafi verið lagfært strax í haust. Staðfest sé að vatnið uppfylli allar kröfur í dag.

Ólafur segir ýmislegt fleira í þessu máli vekja furðu. Hann sjái t.d. ekki hvernig Landsbankanum hafi verið heimilt að selja mjólkurkvótann á jörðinni án samráðs við Daníel. „Lögin gera ráð fyrir að framleiðandinn eigi að fá beingreiðslurnar, en ekki eigandi kvótans. Ef þetta verður niðurstaðan þá eru allir sem búa á ríkisjörðum í bullandi hættu, t.d. ef kemur upp ágreiningur milli þeirra og eiganda,“ segir Ólafur og bætir við að hann segist vita að forystumenn Bændasamtakanna hafi áhyggjur af því hvernig lögin hafi verið túlkuð varðandi þetta atriði málsins.

Ólafur segir að verið sé að skoða grundvöll fyrir skaðabótamáli gegn Landsbankanum.

Hann segir að þó Daníel sé gjaldþrota hafi hann réttarstöðu ábúanda og það séu ákvæði í lögum hvernig hægt sé að losna við ábúanda af jörð. Þau ákvæði verði að virða.

Sauðburður að hefjast

Ólafur bendir á að sauðburður sé að hefjast á næstu dögum og það sé ábyrgðarhluti að bera Daníel út af jörðinni á þessum tíma ársins.

Staða mála á Ingunnarstöðum hefur verið til umræðu í hreppsnefnd Reykhólahrepps, en sveitarstjórnin hefur lýst áhyggjum af stöðunni. Lögmaður Daníels hefur sent sveitarstjórninni bréf þar sem farið er yfir stöðu málsins.

Daníel hefur búið á Ingunnarstöðum frá 10 ára aldri. Hann …
Daníel hefur búið á Ingunnarstöðum frá 10 ára aldri. Hann er með 50 mjólkandi kýr og mikið af kálfum. Morgunblaðið/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert