Algengt er að leigjendur kynni sér ekki rétt sinn sem skyldi og fái þá ekki þær leigubætur sem þeir eiga rétt á. Bæði leigjendur og leigusalar geta fengið aðstoð og leiðbeiningar fagfólks til að gæta réttar síns. Leigusölum er ekki heimilt að fara fram á meira en einn mánuð í fyrirframgreiðslu ef tryggingar er krafist frá leigjendum.
Þetta segir Auður Kristinsdóttir, sem er löggiltur leigumiðlari hjá Fasteignasölunni Bæ í Kópavogi. Í starfi sínu aðstoðar hún fólk við gerð leigusamninga.
„Það er í eðli sínu einfaldur verknaður að leigja eða leigja út, en engu að síður gilda um þetta reglur, margt þarf að hafa í huga og það er nauðsynlegt að rétt sé staðið að verki.“ Í frétt mbl.is í gær, þar sem kona á leigumarkaði segir sögu sína, segir hún að algengt sér að leigusalar fari bæði fram á þriggja mánaða fyrirframgreiðslu auk bankaábyrgðar, sem geti numið allt að þriggja mánaða leigu.
Auður segir þetta vera óheimilt samkvæmt lögum. „Það skiptir svo miklu máli að fólk viti rétt sinn og það dregur úr líkunum á því að það fallist á greiðslur sem þessar.“
Auður segist hafa orðið vör við það í sínu starfi að leigjendur viti ekki að þeir eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum, sem eru viðbót við grunnfjárhæðir húsaleigubóta og eru ákveðnar af sveitarstjórnum.
Reglur um þær eru misjafnar á milli sveitarfélaga og má að öllu jöfnu finna á vefsíðum sveitarfélaga, en hámarksupphæð samanlagðra húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta virðist yfirleitt vera á bilinu 50.000 - 74.000, en má þó yfirleitt ekki fara yfir 75% af leiguverði.
„Miðað við þau samskipti sem ég hef átt við fólk sem sækir um leiguíbúðir hjá okkur, þá virðist það vera allt of algengt að fólk sé ekki meðvitað um sinn rétt,“ segir Auður.