Vart hefur farið fram hjá neinum hversu mjög reiðhjólum fer fjölgandi í umferðinni með hverju árinu. Sífellt fleiri nota reiðhjól sem samgöngutæki allt árið um kring en áhugi á hjólreiðum sem sporti hefur líka sprungið út, bæði á malbiki og misfellum. Æ fleiri fjárfesta jafnframt í háþróuðum og dýrum hjólum.
„Það er óalgengt að fólk byrji á toppinum. Yfirleitt fær fólk sér ódýrari hjól fyrst, síðan fá menn sér sinn fyrsta „reiser“ á 100-150 þúsund, kaupa hann jafnvel notaðan. En ef fólk finnur sig í þessu þá stigmagnast dellan og líka kröfurnar um betri búnað. Við erum með hjól upp í 1,5 milljón hér í búðinni og þau geta orðið dýrari,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, sölustjóri hjá Erninum.
Uppsveifla í þríþrautinni
Algengustu götuhjólin kosta í kringum 70 þúsund krónur en á þeim dýrustu fer verðmiðinn allt upp í 2 milljónir króna og þeim fjölgar sem fara alla leið í þá átt að sögn Einars Þórs Hákonarsonar hjá Kríu.
„Hjólasenan sjálf hefur verið mjög takmörkuð á Íslandi síðastliðin ár, en þetta hefur aukist mikið og nýjar keppnisgreinar bæst við. Þríþrautin hefur eflst gríðarlega, það eru sífellt fleiri að keppa og við erum farin að bjóða upp á sérhæfðari hjól fyrir þann markhóp. Það eru fislétt hjól með þunga gíra og litla loftmótstöðu, svo þú nærð að hámarka hraðann miðað við afl og viðhalda honum,“ segir Einar Þór.
Hann segir allt litrófið af keppnishjólum í umferð á Íslandi og eitthvað um það líka að fólk láti sérsmíða fyrir sig hjól, ekki síst ef það er að leita að sérstökum stíl eða útliti. Í öllu falli virðist ljóst að hjólreiðamenningin hafi endanlega hafið innreið sína á Íslandi. „Við byrjuðum með umboðið 2010 og síðan hefur þetta undið allhressilega upp á sig,“ segir Einar Þór.
Fólk á öllum aldri og báðum kynjum
Sérhæfðum reiðhjólaverslunum hefur líka fjölgað enda standa þær betur undir sér eftir því sem viðskiptavinum fjölgar og eftirspurnin verður jafnari á öllum árstíðum. „Það er orðið meira að gera á veturna og slatta meira á sumrin, bæði á verkstæðum og við að selja ný hjól,“ segir Páll Guðni Guðmundsson hjá versluninni Hjólaspretti.
Aðspurður segir hann mikla breidd í sportinu og fólkið sem til þeirra leitar sé á öllum aldri. „Þetta eru bæði karlar og konur frá þrítugsaldri og upp í sextugt. Svo eru unglingar líka orðið hjólandi út um allt þannig að hérna kemur alls konar fólk bæði að kaupa hjól og biðja um viðgerð.“
Páll Guðni segir ekki óalgengt að fólk eigi 2-3 mismunandi hjól eftir þörfum. „Sumir nota ódýrari týpuna sem farartæki á veturna í snjóinn og slabbið, en flottari sumarhjól og dýrari. Þetta er mjög misjafnt en við erum með hjól alveg frá 69 þúsund krónum og upp í 600-800 þúsund krónur. Við seljum meira af dýrari týpunum núna en fyrir svona tveimur árum, en það er yfirleitt sérpöntun ef það er farið í þessi dýrustu keppnishjól.“
Keppendum fjölgað úr 16 í 600 á 15 árum
Ragnar Þór hjá Erninum segir að nú undanfarið sé hlutfallslega mest aukning í eftirspurn eftir keppnishjólum. „Það er mikill uppgangur í hjólamennsku á öllum stigum, hvort sem það er sem samgöngutæki eða til útivistar og hreyfingar. En fólk er líka farið að taka þátt í keppnum og ég hugsa að það hafi aldrei verið meira um það en núna. Það er gríðarlegur uppgangur í þríþraut og tvöföldun á þátttöku í götuhjólreiðakeppnum.“
Að sögn Ragnars Þórs stefnir í metþátttöku á öllum hjólreiðamótum í sumar, bæði hvað varðar fjölda keppenda og liða og þar séu margir að taka sín fyrstu skref, eða hjóla sína fyrstu metra öllu heldur, í keppni.
Ein af þessum keppnum er Bláa lóns-þrautin, sem haldin er í 15. sinn í júní. Ragnar Þór segir að fyrsta árið hafi keppendur verið 16 talsins. Árið 2004 voru þeir orðnir 50 og í fyrra tóku 430 manns þátt. Í ár stefnir í að 600-700 manns hjóli Bláa lóns-þrautina.
Algengt verð kringum hálfa milljón
Miðað við þessa þróun þarf ekki að koma á óvart að keppnishjól hafa aldrei verið vinsælli, að sögn Ragnars. „Þú getur vel komist af með sterkt og fínt hjól sem er brúklegt allt árið og kostar 69.900 krónur. En eftir því sem þú ferð í dýrari hjól verða þau léttari og með gírskiptingar sem virka betur í álagi.
Svo stigmagnast þetta. Keppnishjólin geta kostað allt frá 200.000 og upp í 600.000. Það eru ekki óalgengir verðflokkar fyrir þá sem vilja komast í alvöru, fislétt keppnishjól úr trefjum.“
Hjólreiðar eru því orðnar það mikilvægur hluti af lífstílnum hjá mörgum að þeir víla ekki fyrir sér umtalsverðar fjárfestingar. Ragnar bendir á að þetta sé ekki endilega meiri peningur en margir eyði á lengri tíma í golfsett og golfklúbba, á líkamsræktarstöðvum eða í önnur áhugamál. Þá má nefna kostnaðinn við rekstur bíls sem sumir eru lausir við.
Góður félagsskapur
Hjólreiðar voru án efa einmanalegra sport fyrir 20 árum en það er í dag. Ragnar Þór segir mikinn félagsskap í kringum hjólreiðarnar.
„Þegar ég byrjaði að vinna á verkstæði Arnarins árið 1992 þá voru þeir fáu einstaklingar sem notuðu hjól sem farartæki allt árið, og gerðu sig jafnvel líklega til að keppa í þessu, álitnir hálfgerðir furðufuglar. Í dag er þetta orðið mjög metnaðarfullt sport. Það eru ekki mörg ár síðan við þekktum alla sem áttu „reiser“-hjól með nafni, en það er alveg útilokað núna.“
Keppnum bæði í götu- og fjallahjólamennsku hefur fjölgað og tefla flestar hjólreiðabúðir fram liði auk þess sem hjólafélög og klúbbar hafa víða skotið upp kollinum. „Svo eru þessi hjólreiðafélög með mikla grasrót fyrir börn, þar sem þau geta tekið þátt í keppnum og farið á námskeið í hjólafærni, og eins fyrir þá sem eru að prófa sig áfram. Þannig að það er margt að gerjast í hjólasportinu.“
Þessi uppsveifla helst í hendur við sívaxandi útivistaráhuga landans. Ragnar Þór segir marga flakka á milli og sumir finni sig í hjólreiðunum eftir að hafa t.d. þurft að draga úr hlaupum eða fjallgöngum vegna meiðsla.
„Það er mikil stemning i kringum þetta og hjólreiðarnar eru líka svo skemmtilegar að fólk ánetjast þeim um leið.“