„Auðvitað viljum við alltaf vera réttum megin við núllið en það tókst því miður ekki í fyrra,“ segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Þau voru rekin með tapi árið 2012, rekstrarniðurstaða ársins var neikvæð um 72,4 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2012. Hins vegar var rekstrartap, fyrir fjármagnsliði og afskriftir, 14,2 milljónir króna. Þar sem skíðasvæðin eru rekin af sex sveitarfélögum er horft á reksturinn fyrir afskriftir, segir Magnús.
Hann nefndi að helstu skýringar á tapinu væru vegna aukins launakostnaðar vegna nýrra kjarasamninga, sem námu um 9 milljónum króna. Þá var skíðasvæðið opið í 78 daga í fyrra sem eru 18 fleiri en gert var ráð fyrir í rekstraráætlun. Tekjur af þessum dögum skiluðu sér hins vegar ekki eins og ráð var gert fyrir.