Náttúruverndarsamtök Íslands krefjast þess að atvinnu og nýsköpunarráðherra skipi yfirmatsnefnd þar eð úrskurður (meirihluta) ítölunefndar frá því mars stenst ekki lög.
Sérstök ítölunefnd fyrir Almenninga í Rangárþingi eystra, þar sem verið hefur upprekstrarland nokkurra bæja undir Eyjafjöllum, skilaði áliti sínu varðandi hvort beita mætti sauðfé á svæðið.
Ekki náðist samstaða í nefndinni um hvort og þá hversu mörgu fé mætti beita á afréttinn.
Meirihlutinn komst að þeirri niðurstöðu að beita mætti 50 fullorðnum ám með lömbum fyrstu fjögur sumrin eða samtals 150 kindum. Síðan mætti fjölga þeim í 90 og síðar í 130 ær að átta árum liðnum og yrði fjöldinn því ekki meiri en 390 kindur. Áhersla er lögð á að fara alltaf með sömu ærnar á afréttinn til að gera það hagvant og stöðugt þar og því sé sleppt á sömu staðina ár hvert. Miðað er við að ástandi afréttarins hraki ekki á þessum tíma.
Fulltrúi Landgræðslunnar í nefndinni skilaði séráliti og segir í áliti hans að afrétturinn Almenningar sé óbeitarhæfur og hugsanleg nýting hans til beitar fjarri því að geta talist sjálfbær. Bent er á að afrétturinn er nánast umlukinn sumum af helstu eldfjöllum landsins og verða því hin dreifðu gróðursvæði á afréttinum iðulega fyrir miklum skakkaföllum af öskufalli, að því er fram kom í fréttum í mars.
„Ítala skal svo ákvörðuð, að fullskipað sé í landið en ekki ofskipað miðað við beitarþol. Byggja skal á beitarþolsrannsóknum svo sem við verður komið, jafnframt skal tekið tillit til aðstæðna hverju sinni, segir í kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Náttúruverndarsamtök Íslands telja þessa skipan mála óþolandi og krefjast þess að yfirmatsnefnd verði skipuð fagmönnum sem ekki eiga annarra hagsmuna að gæta en framfylgja lögum. Nauðsynlegt er að yfirmatsnefnd hafi varúðarregluna að leiðarljósi.