Baldur P. Erlingsson, lögfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, segir að afgreiðsla á stjórnsýslukæru Daníels Jónssonar, bónda á Ingunnarstöðum, sé í eðlilegum farvegi, en Daníel kærði í nóvember sl. ákvörðun Matvælastofnunar að svipta hann starfsleyfi.
Kæran var send atvinnuvegaráðuneytinu 20. nóvember í fyrra. Baldur segir að í samræmi við stjórnsýslulög hafi verið óskað eftir andmælum frá Matvælastofnun og í framhaldinu hafi lögmanni Daníels verið gefinn kost á að svara þeim. Svar hans hafi borist 18. febrúar og síðan hafi ráðuneytið verið að fara yfir málið og vinna í því að úrskurða í málinu. Hann segir að ráðuneytið sé með margar kærur til umfjöllunar og mál Daníels sé í eðlilegum farvegi.
Í stjórnsýslulögum segir að „ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.“ Jafnframt segir að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Upplýsa skuli um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
Daníel óskaði eftir því við atvinnuvegaráðuneytið að hann fengi að selja mjólk meðan ráðuneytið væri að afgreiða kæru hans. Ráðuneytið hafnaði því vegna þess að það taldi að neytendur ættu að njóta vafans. Síðan hefur Daníel hellt niður allri mjólk sem ekki nýtist á búinu, en hann er búinn að hella niður yfir 100 þúsund lítrum af mjólk.
Daníel sendi inn umsókn um nýtt starfsleyfi 10. desember sl. til Matvælastofnunar, en stofnunin hafnaði erindinu þremur dögum síðar á þeim forsendum að Hömlur, dótturfélag Landsbankans, væri jarðareigandi. Bankinn hefur nú höfðað mál fyrir Héraðsdómi Vestfjarða og krafist þess að Daníel verði borinn út af jörðinni.