Viðskiptaþvinganir enn á borðinu

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB. mbl.is/ESB

„Sá möguleiki að beita viðskiptaþvingunum er vitanlega enn á borðinu,“ sagði Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, í umræðum í Evrópuþinginu síðastliðinn mánudag og vísaði þar til þvingana gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar. Hins vegar væri mikilvægt að farið yrði vandlega yfir þær lagalegu forsendur sem þyrfti að uppfylla vegna slíkra aðgerða og tímasetningu þeirra.

„Við erum að ræða allar mögulegar leiðir vegna makrílsins við aðildarríkin. Í næstu viku funda ég með norska [sjávarútvegs-]ráðherranum með það fyrir augum að komast að niðurstöðu,“ sagði hún ennfremur samkvæmt fréttavefnum Fishnews.eu í gær og bætti við að þegar hefði verið farið yfir það hvernig slíkar viðskiptaþvinganir yrðu framkvæmdar í því skyni að flýta fyrir ákvörðunartöku ef til þess kæmi að gripið yrði til slíkra aðgerða.

Damanaki sagði að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fylgdist náið með málinu og að verið væri að skoða ýmsa möguleika í stöðunni. Enginn möguleiki hefði verið útilokaður í því sambandi enn sem komið væri. „Við munum halda áfram að beita öllum mögulegum leiðum til þess að setja pólitískan þrýsting á Ísland og Færeyjar ásamt samstarfsmönnum okkar í Noregi.“

Frétt Fishnews.eu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert