Flokksbræðurnir Össur Skarphéðinsson og Magnús M Norðdahl skjóta föstum skotum hvor á annan í tengslum við nýjan fríverslunarsamning Íslands og Kína. Össur sakaði Magnús um „hattalógík“ þegar hann sagðist skammast sín fyrir Samfylkinguna vegna samningsins en Magnús kallar málflutning Össurar lygar.
Orðahnippingarnar hófust þegar Magnús lýsti því yfir á Facebook síðu sinni að hann skammist sín fyrir flokkinn sinn eftir að Össur undirritaði fríverslunarsamning við „stærsta alræðisríki veraldar sem gefur „blaff“ fyrir mannréttindi almennings, launafólks og frjálsra samtaka launafólks“ eins og Magnús orðaði það.
„Utanríkisráðherraræfillinn“ ruglar saman samningum
Össur svaraði Magnúsi um hæl á bloggi sínu í dag og sakaði hann um „hattalógík“. Dró hann fram tilvitnanir í ársgamla ræðu Magnúsar á Alþingi, þar sem hann gagnrýndi að í nýjum fríverslunarsamningi við Samstarfsráð Arabaríkja við Persaflóa væri ekki að finna eins skýr mannréttindaákvæði og í samningnum við Kína.
„Nú gætu einhverjir þurft að klípa sig, og hugsa í hljóði: Er þessi Magnús sem svona lofaði Kínasamninginn á Alþingi sami Manginn og gekk fyrr í þessari viku með barefli á sama samning – og utanríkisráðherraræfilinnn sem hann gerði? – Mönnum fyrirgefst líklega þó þeim einsog mér komi til hugar eitt frægasta verk Kafka, Hamskiptin,“ ritaði Össur á blogg sitt.
Staðreyndin er þó sú að viðskiptasamningurinn sem Magnús vísaði í á Alþingi 2012 var ekki sá sami og um ræðir nú, heldur samningur milli EFTA og Íslands við Kína vegna Hong Kong, sem takmarkast við héraðið Hong Kong. Eins og kunnugt er þá er staða mannréttindamála talsvert önnur í Hong Kong en á meginlandi Kína.
Ráðherrann viti sínu fjær?
Magnús svarar Össuri í kvöld og segir hann rugla þessu saman við þann „dæmalausa samning sem hann undirritaði einn og án EFTA við Alþýðulýðveldið Kína og sem gildir um restina af Kína, tæpu ári síðar.“ Magnús bendir jafnframt á að Össur fari með rangt mál þegar hann segir að Magnús hafi greitt atkvæði með samningnum við Samstarfsráð Arabaríkjanna.
„Þetta heitir nú bara lygi í minni sveit,“ bætir Magnús við á Facebook síðu sinni í kvöld. „Eftir lestur á grein Össurar verð ég að játa að ég hef talsverðar áhyggjur af ráðherranum ef hann hefur verið svo viti sínu fjær þá er hann skrifað undir við Alþýðulýðveldið Kína um daginn að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvaða samning hann var að rita undir.“