„Okkar mat er að það þurfi að klára Landeyjahöfn þannig að hún virki allt árið og að menn eigi að einbeita sér að því að finna lausnir hvað það varðar. Síðan þurfi að smíða skip sem dugi til næstu 20 ára.“
Þetta segir Grímur Gíslason, fyrrverandi stjórnarformaður Herjólfs, en áhugamenn um bættar samgöngur milli lands og Eyja efndu til borgarafundar um samgöngumál í Vestmannaeyjum í gær, sem ríflega 300 manns sátu.
„Það kom fram á fundinum að þær áætlanir sem Siglingastofnun hefur gert um Landeyjahöfn hingað til hafa ekki gengið vel eftir og það var gagnrýnt. Og Sigurður Áss [Grétarsson fulltrúi Siglingastofnarinnar og Vegagerðinnar] tók undir það að þær hefðu ekki gengið alveg eftir. En síðan voru skiptar skoðanir um lausnir,“ segir Grímur í samtali um fundinn í Morgunblaðinu í dag, en heimamenn settu fram ýmsar kröfur upp á framtíðina.