„Viðræður um aðlögun lagasetningar Íslands að Evrópusambandinu hafa gengið með einföldum hætti fyrir sig utan einn málaflokk, sjávarútveg. Íslendingar vilja halda fullveldinu yfir auðugum fiskimiðum sínum, Evrópusambandið leggur áherslu á sameiginlegar reglur,“ segir á fréttavefnum Euobserver.com í gær þar sem fjallað er um þingkosningarnar hér á landi næstkomandi laugardag með tilliti til Evrópumála.
Fram kemur í fréttinni að búist sé við að kjósendur afþakki frekari ríkisstjórnarsetu Samfylkingarinnar sem styðji inngöngu í Evrópusambandið en geri hins vegar Framsóknarflokknum fært að setjast í ríkisstjórn. Möguleg ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kunni í kjölfarið að boða til þjóðaratkvæðis um framhald viðræðnanna.
Ennfremur segir að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið hafi verið mjög umdeild meðal Íslendinga síðan Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi sótt um inngöngu í júlí 2009 og heitið því að halda þjóðaratkvæði um niðurstöðu viðræðnanna.
Þá er vitnað í nýlega skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem hafi sýnt að 55% Íslendinga vilji að viðræðunum verði lokið og síðan fari fram þjóðaratkvæði um það hvort gengið verði í Evrópusambandið en um þriðjungur vilji draga umsóknina til baka.