Fjármála- og efnahagsráðherra hefur í samræmi við heimild í lögum heimilað Nýjum Landspítala ohf. að auglýsa forval bjóðenda vegna fullnaðarhönnunar á byggingum nýs Landspítala við Hringbraut.
Frá og með þriðjudeginum 23. apríl auglýsir Nýr Landspítali ohf. eftir umsækjendum til að taka þátt í útboði á hönnun nýrra bygginga sem verða hluti af nýjum Landspítala við Hringbraut. Um er að ræða opið forval bjóðenda auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Útboðin verða lokuð öðrum en þeim sem tekið hafa þátt í forvalinu og uppfyllt allar kröfur þess.
Fullnaðarhönnun heildarverkefnisins er skipt upp í fjögur aðskilin hönnunarútboð; um 58.500 ferm meðferðarkjarna, um 14.000 ferm rannsóknarhús, um 21.300 ferm bílastæðahús og um 4.000 m² sjúkrahótel.
Engin takmörkun er á fjölda bjóðenda og öllum bjóðendum, sem uppfylla kröfur forvalsgagna og standast þannig forval, er boðið að taka þátt í lokuðum aðskildum hönnunarútboðum fyrir hverja byggingu fyrir sig. Ekki er gefin einkunn fyrir hæfni og reynslu og því mun tilboðsfjárhæð hafa 100% vægi í hönnunarútboðunum. Ekki verður greitt fyrir þátttöku í forvalinu.
Þeir fyrirvarar eru gerðir strax í upphafi að útboð á hönnun muni þá aðeins fara fram að verkefninu verði tryggð fjármögnun á fjárlögum. Niðurstöður forvalsins skulu gilda í 9 mánuði eftir að þær liggja fyrir.
Forvalsgögn verða aðgengileg á vef Ríkiskaupa frá og með 23. apríl. Kynningarfundur fyrir væntanlega þátttakendur í forvali verður í Hringsal Barnaspítala Hringsins þriðjudaginn 14. maí nk. kl. 14.00–16.00.