„Síðasta ár gekk mjög vel. Raunávöxtun lífeyrissjóðanna í heild var á bilinu 7,5-7,8%. Þá góðu ávöxtun má fyrst og fremst rekja til hækkunar á verðmæti erlendra eigna vegna hækkana á erlendum hlutabréfamörkuðum. Veiking krónunnar hafði áhrif í þessa veru en þau voru mun minni.“
Þetta segir Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, í Morgunblaðinu í dag um afkomuna í fyrra. „Tryggingafræðileg staða flestra sjóða batnaði á síðasta ári vegna góðrar afkomu. Á móti kemur að í uppgjöri sjóðanna voru notaðar nýjar lífslíkur og þar sem meðalævi heldur áfram að lengjast hækkuðu skuldbindingar um 1-1,5%.
Síðasta ár var einstaklega gott fyrir lífeyrissjóðina og þrátt fyrir að ég sé bjartsýnn á framtíðina á ég ekki von á því að sjá jafn góða ávöxtun í náinni framtíð.“