Herdís Þorgeirsdóttir hefur verið skipuð í stjórn evrópsku lagaakademíunnar (ERA /European Academy of Law), sem stofnuð var 1992 af aðildarríkjum Evrópusambandsins og byggir á föstum framlögum þeirra, til að mæta þörf á aukinni þekkingu á sviði evrópskrar löggjafar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Evrópsku lagaakademíunni var valinn staður í Trier vegna nálægðar við Evrópudómstólinn og EFTA-dómstólinn í Luxemborg. Þangað sækja lögfræðingar, dómarar, saksóknarar, lögmenn og þeir sem starfa í stjórnsýslu námskeið.
Jafnframt skipuleggur evrópska lagaakademían ráðstefnur og námskeið víða um Evrópu, fjarnám og gefur út lögfræðitímaritið ERA Forum.
Herdís Þorgeirsdóttir er forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga frá 2009 og endurkjörin 2011. Hún er fulltrúi Íslands í Feneyjarnefnd Evrópuráðsins; formaður undirnefndar Feneyjarnefndarinnar um grundvallarréttindi og í stjórn vísindaráðs Feneyjarnefndarinnar. Þá starfar hún í teymi evrópskra lögfræðinga á sviði jafnréttislöggjafar.
Hún var skipuð prófessor við lagadeildina á Bifröst 2004. Hún lauk doktorsprófi í lögum frá lagadeild háskólans í Lundi 2003 og er sérfræðingur á sviði mannréttinda og stjórnskipunar. Herdís er einnig stjórnmálafræðingur með framhaldsmenntun frá Fletcher School of Law and Diplomacy í Bandaríkjunum. Herdís er lögmaður í Reykjavík.