Besta starf í Bandaríkjunum er starf tryggingafræðings. Það versta er blaðamennska, sé eitthvað að marka úttekt bandarískrar rannsóknarstofu í starfsþróun. 200 störf voru metin á grundvelli fimm þátta; líkamlegs erfiðis, vinnuumhverfis, launa, streitu og möguleika á að fá viðkomandi starf og þetta var niðurstaðan.
Í fyrra var viðarhöggsmaður í neðsta sæti listans, en nú hefur blaðamaður ýtt honum úr sessi. Ástæður þess eru meðal annars að laun hafa lækkað, álag hefur aukist í starfi og starfsmöguleikum hefur fækkað.
Listinn er birtur á vefsíðu The Wall Street Journal og þar kemur margt áhugavert í ljós. Til dæmis er leikarastarfið í 197. sæti, flugfreyjustarfið í því 191. og starf tískuhönnuðar í 182. sæti. Lögmannsstarfið er nokkuð ofar á listanum, eða í 117. sæti og starf heyrnarfræðings í því fjórða.