Einstök góðvild í garð LSH árið 2012

Tækjakostur Landspítalans var mikið í fréttum á síðasta ári. Landsmenn …
Tækjakostur Landspítalans var mikið í fréttum á síðasta ári. Landsmenn brugðust hratt við og hefur gjafafé aldrei verið meira. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á hverju ári berast Landspítalanum gjafir frá fólki, stofnunum og fyrirtækjum. Árið 2012 var einstakt hvað þetta varðar en þá bárust sjúkrahúsinu gjafir að andvirði 460 milljóna króna. Stærstur hluti gjafanna var í formi lækningatækja og ýmiss konar búninga.

„Þessi stuðningur er Landspítala ómetanlegur,“ segir í ársskýrslu LSH sem kom út í dag.

Lionsklúbbar gáfu til dæmis augnlækningadeild tæki að verðmæti um 20 milljónir króna, með stuðningi alþjóðahjálparsjóðs Lions, í tilefni af 60 ára afmæli Lions á Íslandi. Hringskonur voru stórtækar að vanda og færðu meðal annars Barnaspítala Hringsins 70 milljónir króna til tækjakaupa í tilefni af 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðs Hringsins.

„Þetta er ótrúleg velvild og skilningur sem Landspítalanum er sýndur á erfiðum tímum,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is. 

Framlög hins opinbera til tækjakaupa dregist saman

Framlög til tækjakaupa á Landspítala samkvæmt fjárlögum hafa á síðustu árum dregist saman að raunvirði ef undan er skilið árið 2009 en þá kom aukafjárveiting til neyðarkaupa á sneiðmyndatæki. Í fjárlögum ársins 2012 ákvað Alþingi að færa 90 milljónir króna úr almennum rekstri spítalans yfir á tækjakaupalið. Í árslok 2012 veitti Alþingi svo 150 milljónir króna aukaframlag til tækjakaupa.

Í fjárlögum 2013 hækkaði aukaframlagið í 600 milljónir. Ef framlög til tækjakaupa haldast í þessu horfi mun LSH smám saman geta endurbætt og aukið tækjakost sinn á næstu árum. Á Norðurlöndum er gjarnan miðað við að tækjakaup nemi um 2-5% af heildarrekstrarkostnaði sjúkrahúsa sem væri þá 1-2 milljarðar á ári fyrir LSH miðað við rekstrarkostnað síðustu ára, segir í ársskýrslu LSH.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert