„Ég var á leið heim af kosningaskrifstofunni þegar ég sá að eldur logaði í ljósastaurnum og lögreglumenn á staðnum. Svæðið hafði verið girt af og öryggis og fagmennsku gætt í hvívetna eins og við var að búast.“
Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en eldur kom upp í ljósastaur í Reykjanesbæ í kvöld sem væntanlega hefur kviknað út frá rafmagni.
Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum og komu viðgerðarmenn síðan á vettvang og gerðu við staurinn.