„Þetta hefur gengið mun hraðar en útlit var fyrir í fyrstu,“ segir Gunnar Sigurgeirsson verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, sem hefur umsjón með hreinsun Vestfjarðarvegar um Kjálkafjörð þar sem stærðarinnar skriða féll í gær.
Áætlað er að um 150 þúsund rúmmetrar af mold og grjóti hafi fallið á veginn og þykir mildi að ekki fór verr því vegagerðarmenn voru að störfum þegar hún féll. Munaði litlu að skriðan félli á gröfu sem Bragi Árnason hjá Suðurverki stýrði.
Lítill tími til að hugsa
„Það var ósköp lítill tími til að hugsa. Þetta gerðist svo snöggt. Ég setti skófluna í sjávarmegin og svo rann grafan 20 til 30 metra niður og stoppaði á vegbrúninni á gamla veginum,“ er haft eftir Braga í Morgunblaðinu í dag. Hluti skriðunnar lenti á vélarhlífinni en að öðru leyti slapp grafan.
Aukaferð verður farin með Breiðafjarðarferjunni Baldri í dag þar sem vegurinn um Kjálkafjörð er lokaður, en Gunnar hjá Vegagerðinni segist vonast til þess að unnt verði að opna fyrir umferð síðdegis.
„Það eru einhverjir 4 til 5 stórir trukkar að vinna á veginum og ein 80 tonna grafa og önnur 40-50 tonna grafa, auk ýtu og hefils. Það var unnið fram í myrkur í gær og byrjað aftur klukkan 7 í morgun,“ segir Gunnar.
Ekki var um blauta eðju að ræða að sögn Gunnars heldur stóran, þurran jarðmassa sem færðist fram um eina 100 metra. Aðspurður segist hann ekki geta sagt til um það eins og er hvað olli skriðufallinu, en verið var að snyrta neðan af svonefndri skeringu þegar óhappið varð og hefðbundnu verklagi fylgt.
„Það er jarðfræðingur frá Vegagerðinni að skoða þetta núna,“ segir Gunnar. Unnið er að lagningu nýs Vestfjarðarvegar í Barðastrandarsýslu, milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði um 16 km kafla þar sem nú er gamall malarvegur. Vegurinn styttist um 8 km vegna þverunar Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar.
Hér að neðan má sjá stutt myndband frá Vegagerðinni frá því þegar byrjað var að moka framhlaupið af veginum: